Fara í efni

Boðið upp á námskeið í hugrænni atferlismeðferð

Hjalti Jónsson, sálfræðingur við VMA.
Hjalti Jónsson, sálfræðingur við VMA.
Í næstu viku hefst námskeið í VMA í hugrænni atferlismeðferð, sem er ætlað nemendum með kvíða- og þunglyndiseinkenni. Umsjón með námskeiðinu hefur Hjalti Jónsson, sálfræðingur, sem hefur frá sl. hausti verið í hálfu starfi sálfræðings í VMA. Reynsla hans af haustönn er sú að greinileg þörf sé í framhaldsskólum, ekkert síður en í grunnskólum, fyrir sálfræðiþjónustu.

Í næstu viku hefst námskeið í VMA í  hugrænni atferlismeðferð, sem er ætlað nemendum með kvíða- og þunglyndiseinkenni. Umsjón með námskeiðinu hefur Hjalti Jónsson, sálfræðingur, sem hefur frá sl. hausti verið í hálfu starfi sálfræðings í VMA. Reynsla hans af haustönn er sú að greinileg þörf sé í framhaldsskólum, ekkert síður en í grunnskólum, fyrir sálfræðiþjónustu.

„Hópnámskeiðið í hugrænni atferlismeðferð (HAM), sem ég er að fara af stað með, er fyrir nemendur með kvíða- eða þunglyndiseinkenni. Námskeiðið verður einu sinni í viku í sex vikur,  klukkutíma í senn, og verður byggt upp á fyrirlestrum og heimaverkefnum, sem farið verður yfir í upphafi næsta tíma. Ég legg mikla áherslu á trúnað, t.d varðandi það hverjir sæki námskeiðið. Meginmarkmiðið er að bæta líðan nemenda, minnka kvíða- og þunglyndiseinkenni og gera þátttakendum grein  fyrir því hvað öðru fremur viðheldur kvíða og þunglyndi,“ segir Hjalti og hvetur þá nemendur sem hafa áhuga á að skrá sig á námskeiðið að gera það hið fyrsta. Það geta nemendur gert með því að senda Hjalta tölvupóst eða hafa beint samband við hann í skólanum.

Hjalti segir að samkvæmt tölfræðinni séu á bilinu 10-20% ungs fólks með það mikinn kvíða og/eða þungyndi að það hafi verulega truflandi áhrif á skólagöngu, vinnu og daglegt lífi. „Séu þessar tölur heimfærðar upp á Verkmenntaskólann má ætla að 130 til 260 krakkar í VMA eigi við vanlíðan af einhverju tagi að stríða. Það meðferðarform sem hefur gefið besta raun við kvíða og þunglyndi er hugræn atferlismeðferð,“ segir Hjalti og bætir við að m.a. sé boðið upp á sambærilegt námskeið á Sjúkrahúsinu á Akureyri og sömuleiðis bjóði sjálfstætt starfandi sálfræðingar upp á slíka meðferð.

Hjalti lauk cand. psych. prófi í sálfræði sl. vor og var ráðinn í hálfa stöðu sálfræðings við VMA sl. haust. „Frá því ég hóf störf hér í ágúst hef ég fengið um 70 krakka í viðtal til mín. Suma hitti ég einu sinni, en aðra í nokkur skipti. Helsta ástæðan fyrir því að þessir krakkar hafa komið til mín er vanlíðan af ýmsum toga, sem oftar en ekki er vegna þunglyndis eða kvíða. Sú tegund kvíða sem er mest áberandi er félagsfælni, “ segir Hjalti.  Hann segist hafa rennt nokkuð blint í sjóinn þegar hann hóf störf við VMA sl. haust um þörf fyrir sálfræðiþjónustu, en ótvírætt sé hún mikil og nemendur væru duglegri að leita til sín en hann hefði fyrirfram búist við og jafnframt opnari um sína hagi.

Hjalti segist aðspurður ekki vita til þess að sambærileg sálfræðiþjónusta sé til staðar í öðrum framhaldsskólum hér á landi. „Mér vitanlega er Verkmenntaskólinn fyrsti framhaldsskólinn sem ræður sálfræðing til þess að sinna geðheilbrigði nemenda sinna. Á þessu sviði er Ísland töluvert langt að baki hinum Norðurlöndunum. Í Finnlandi hygg ég t.d. að séu sálfræðingar í bróðurparti framhaldsskóla,“ segir Hjalti. „Ráðning mín hér er í raun tilraunaverkefni. Reynslan hefur sýnt okkur að það er mikil þörf fyrir þessa þjónustu, ekki bara í Verkmenntaskólanum á Akureyri, heldur almennt í framhaldsskólum hér á landi.  Vonandi er þetta bara fyrsta skrefið til þess að bæta úr brýnni þörf á framhaldsskólastiginu. Það eru skólasálfræðingar í grunnskólunum, en það er vert að velta því fyrir sér af hverju þá ekki líka í framhaldsskólunum. Þar er að mínu mati þörfin ekkert síður til staðar en á grunnskólastiginu,“ segir Hjalti Jónsson.