Fara í efni

Björg Eiríksdóttir sýnir í bæjarstjórnarsalnum

Eitt af verkum Bjargar á sýningunni.
Eitt af verkum Bjargar á sýningunni.

Björg Eiríksdóttir, kennari við listnámsbraut VMA og myndlistarmaður, sýnir nú verk sín í bæjarstjórnarsalnum í Ráðhúsi Akureyrarbæjar við Geislagötu. Sýningin stendur yfir næstu sex mánuði.

Það verður seint sagt um kennara við listnámsbraut VMA að þeir séu ekki iðnir við sína listsköpun samhliða kennslunni. Sýning Bjargar er þriðja sýning kennara á listnámsbraut sem hefur verið opnuð á stuttum tíma. Arna Valsdóttir er með sýningu sína Staðreynd-Local Fact í sal Listasafnsins á Akureyri og í Ketilhúsinu er sýning Véronique Legros, Landiða. Sýning Örnu verður opin til 12. október en sýning Véronique verður opin til 2. nóvember.

Á sýningu sinni í bæjarstjórnarsalnum sýnir Björg Eiríksdóttir útsaumsverk og málverk þar sem kemur við sögu ganga, uppskera, lagskipting, draumar, þráður og þrykk. Hún segir að um sé að ræða bæði ný verk frá liðnu sumri og einnig endurunnin verk.

Hér eru myndir frá sýningu Bjargar í bæjarstjórnarsalnum – annars vegar mynd frá opnun sýningarinnar sl. mánudag og hins vegar mynd af einu útsaumsverkanna.