Fara í efni

Bjástrað við endingargóðar krullur

Hér eru hafðar hendur í hári.
Hér eru hafðar hendur í hári.

Permanent er málið! Nemendur á þriðju önn í hársnyrtiiðn í VMA voru önnum kafnir við að setja permanent í módel sín þegar litið var inn í kennslustund í áfanganum PEM 303. Þarna var vandað til verka og áhuginn skein úr andlitum nemenda!

Í þessu sambandi er gaman að skoða fyrir hvað „permanent“ stendur í Íslenskri orðabók. Skilgreiningin er þessi: „Endingargóðar krullur sem settar eru í hár með sérstökum spólum eða vökva.“

Hildur Salína Ævarsdóttir kennari segir að þegar nemendur fara að setja permanent í módel sín sé stigið ákveðið og mikilvægt skref í náminu. Hún segir að nemendur hafi almennt ánægju af því að takast á við slík raunhæf verkefni, hér sé alvaran orðin meiri í náminu.

Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar í kennslustundinni í PEM 303.

„Pivot Point“ er kerfi sem kennt er eftir í hársnyrtideildinni í VMA, eins og víða annars staðar. Þetta er alþjóðlegt kerfi sem hefur verið kennt eftir til fjölda ára. Dagana 23.-28. september var haldið „Pivot Point – námskeið“ í Stokkhólmi sem Hildur Salína og Harpa Birgisdóttir, brautarstjóri hársnyrtideildar VMA, sóttu. Á námskeiðinu voru kennarar víða að úr Evrópu og segir Hildur Salína að það hafi í senn verið mjög gagnlegt og skemmtilegt, gaman hafi verið að ræða við kennara frá öðrum löndum og kynnast því hvað þeir væru að gera. Alltaf sé gott að fá nýjar hugmyndir og sjá hlutina frá nýjum sjónarhornum, það hjálpi til að miðla einhverju nýju í kennslunni.