Fara í efni

Auglýst eftir nemendum VMA sem vilja taka þátt í Evrópuverkefni í Hollandi í mars nk.

Leiðin liggur til Harderwijk í Hollandi í mars.
Leiðin liggur til Harderwijk í Hollandi í mars.

VMA tekur þátt í Erasmus+ verkefninu Ready for the World með Randers Social- og sunhedsskole í samnefndri borg á Jótlandi í Danmörku og Morgen College í Harderwijk í Hollandi. Nú þegar hafa nemendur og kennarar hist einu sinni, það var í Randers í nóvember á síðasta ári, og nú líður að því að skólarnir hittist aftur. Það verður dagana 13. til 18. mars nk.

Af hálfu VMA halda utan um þetta verkefni kennararnir Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir og Valgerður Dögg Oddudóttir Jónsdóttir. Hér með auglýsa þær eftir þátttakendum í ferðina og leita að fjórtán áhugasömum nemendum og einum kennara. Nú er sem sagt tækifærið til þess að upplifa eitthvað nýtt og skemmtilegt!

Ready for the World verkefnið hófst á síðasta ári. Undirbúningsfundur var í VMA í september á síðasta ári þar sem fulltrúar skólanna þriggja sem þátt taka í verkefninu lögðu línur um verkefnið og hvernig það yrði unnið. Í framhaldinu hittust nemendur og kennarar frá skólunum þremur í Randers í Danmörku í nóvember sl. og nú er komið að endurfundum í mars. Til Danmerkur fór 21 nemandi frá VMA og með þeim þrír starfsmenn skólans.

Í þessu verkefni, Ready for the World, skoða nemendur frá margvíslegum sjónarhornum sín samfélög með það að leiðarljósi að leggja fólki lið á ýmsan hátt. Dregin eru fram sérkenni landanna þriggja í þessum efnum. Næsta haust, þegar fulltrúar skólanna í Danmörku og Hollandi heimsækja VMA,verður sjónum beint að íslenskri náttúru og kynnt hvernig við Íslendingar glímum við óblíð náttúruöflin. Í því sambandi verður kastljósinu m.a. beint að sjálfboðaliðastarfi björgunarsveitanna á Íslandi, sem er óþekkt í hinum tveimur löndunum.

Í Ready for the World er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Sem fyrr segir er nú komið að annarri ferð nemenda og kennara VMA út fyrir landsteinana í þessu verkefni, stefnt er að því að heimsækja Morgen College í Harderwijk í Hollandi 13. til 18. mars nk.

Hrafnhildur og Valgerður óska eftir því að fá þriðja kennarann til liðs við sig fyrir þessa ferð til Hollands og eru áhugasamir kennarar beðnir um að hafa samband við þær. Einnig er þess óskað að áhugasamir nemendur sæki um að taka þátt í verkefninu og fara til Hollands í mars.

Umsóknir um þátttöku í ferðinni

1. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í ferðinni sendi umsóknir á hrabba@vma.is og/eða vala@vma.is.

2. Allir nemendur VMA – af öllum brautum skólans - geta sótt um.

3. Með umsókninni þarf að skila inn myndbandi með kynningu á umsækjanda. Í því komi fram:

a)    Hver ert þú?

b)    Af hverju viltu taka þátt í þessu verkefni og þessari ferð?

c)     Hvað vekur áhuga þinn?

d)    Hvað myndir þú vilja læra?

e)    Hverjir eru styrkleikar þínir?

f)      Af hverju ætti að velja þig til þátttöku í þessu verkefni?

4. Við val á þátttakendum er tekið tillit til mætingar og ástundunar í skólanum.

4. Skilyrði er að umsækjendur séu þríbólusettir fyrir kóvid.

5. Leitað er að þátttakendum sem eru opnir og tilbúnir að kynnast og vinna með fólki frá öðrum löndum.

6. Sæki fleiri en 14 nemendur um verða þátttakendur valdir m.t.t. myndbandsins, mætinga í skólann, ástundar og bólusetninga. Kennarar og skólastjórnendur taka endanlega ákvörðun um hverjir fara í ferðina.

7. Síðast en ekki síst; umsóknarfrestur er til 6. febrúar nk. Stefnt er að því að umsækjendur fái svör eigi síðar en 10. febrúar nk.

Hér eru frekari upplýsingar um verkefnið og ferðina til Hollands.