Fara í efni

Auður Karen Gunnlaugsdóttir nýr skólahjúkrunarfræðingur VMA

Auður Karen Gunnlaugsdóttir.
Auður Karen Gunnlaugsdóttir.

Auður Karen Gunnlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur starfar sem skólahjúkrunarfræðingur við VMA í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Auður er í skólanum á þriðjudögum kl. 08:00 til 12:00 og á miðvikudögum kl. 08:00 til 13:00. Opnir viðtalstímar hennar eru kl. 08:30-09:30 á þriðjudögum og kl. 10:30-11:30 á miðvikudögum en utan þeirra er hægt að leita til hennar þessa tvo daga og einnig vill hún hvetja nemendur að senda sér tölvupóst á audur.karen.gunnlaugsdottir@vma.is, til þess að fá upplýsingar eða panta viðtalstíma á framangreindum dögum. Auður Karen er með skrifstofu í C-álmu skólans, við hlið kennslustofunnar C-09.

Auður Karen er skólahjúkrunarfræðingur í bæði VMA og MA og einnig starfar hún á heilsugæslustöðinni á Akureyri (Heilbrigðisstofnun Norðurlands). Þá er rétt að benda nemendum úr VMA sem búa á heimavistinni á að þeir geta leitað til Auðar - annað hvort með því að hitta hana í skólanum eða senda henni tölvupóst. Og einnig skal undirstrikað að forráðamönnum nemenda er velkomið að hafa samband við Auði.

Auður hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur í nítján ár, þar af starfaði hún í mörg ár í Danmörku. Til Akureyrar flutti hún með fjölskyldunni árið 2020.

„Ég tel mjög jákvætt að tengja skólahjúkrunina við heilsugæsluna með þessum hætti. Í þeim tilvikum þar sem þarf nánari skoðunar við get ég sem starfsmaður heilsugæslunnar vísað veginn og þannig ætti þjónustan að verða markvissari og betri,“ segir Auður Karen.

Skólahjúkrunarfræðingur er í VMA til þess að þjónusta nemendur, veita þeim ráðgjöf og/upplýsa. Eins og hér má sjá er ótal margt sem nemendur geta leitað til Auðar með.

Sem skólahjúkrunarfræðingur er Auður Karen í forvarnateymi skólans, sem hittist í viku hverri. Í teyminu eru einnig sálfræðingur skólans, námsráðgjafar og forvarnafulltrúi.