Fara í efni

Fjarkennir dönsku

Árni Hrólfur Helgason fjarkennir nemendum í dönsku
Árni Hrólfur Helgason fjarkennir nemendum í dönsku

Hluti af bóklegum hluta náms í dagskóla í VMA er í fjarnámi núna á haustönn – eins og sl. vor eftir að loka þurfti skólanum vegna kórónuveirufaraldursins.  Takmarkanir á fjölda nemenda í skólanum gera það að verkum að ekki er leyfilegt að hafa eins marga nemendur í skólanum á sama tíma og væri ef kórónaveiran setti ekki strik í reikninginn.

Árni Hrólfur Helgason, dönskukennari, situr hér í skólastofu í VMA og er í sambandi við nemendur sína í upprifjunaráfanga í dönsku. Hann minnir þá á hvar þeir geti á netinu sótt sér þýðingar á dönsku - og bætir við að Google Translate sé ekki sú upplýsingaveita sem nemendur eigi að treysta á. Í þessum fjartíma er m.a. unnið í danskri málfræði og ýmislegt annað ber á góma.

Á þessum fjarfundi eru sautján nemendur mættir hjá Árna Hrólfi. Nemendur hlýða á það sem Árni hefur fram að færa og sendir honum spurningar í gegnum fjarfundabúnaðinn Moodle Bigbluebutton. Árni segist hitta nemendur sína í skólastofu einu sinni í viku, einu sinni vinna nemendur sjálfstætt og í þriðja tímapari vikunnar hittir hann nemendur á fjarfundi.

Árni Hrólfur segir að smám saman hafi dönskukennarnir verið að færa námsefnið inn á Moodle og þar geti nemendur sótt lesefni og verkefni. Hann segir að út af fyrir sig vefjist fjarfundafyrirkomulagið hvorki fyrir sér né nemendum en mat hans er að það komi aldrei í stað kennstustunda með nemendum í skólastofu.

„Fjarnám hentar sumum nemendur vel en öðrum síður. Við höfum verið að prófa okkur áfram með rafræn próf og fyrir suma nemendur koma þau betur út. Það er mjög gott fyrir okkur, nemendur og kennara, að þróa þessa tækni og tileinka okkur hana. Hins vegar segi ég sem kennari að fjarnám kemur að aldrei í stað kennslu í kennslustofu, þar sem nándin er meiri og auðveldara að eiga bein samskipti við nemendur. Persónuleg samskipti milli nemenda og kennara eru afar mikilvæg,“ segir Árni Hrólfur.