Fara í efni

Annar hópurinn í kvöldskóla í húsasmíði

Nemendur í kvöldskóla VMA í húsasmíði í september 2023.
Nemendur í kvöldskóla VMA í húsasmíði í september 2023.

Núna á haustönn hóf nýr námshópur nám í kvöldskóla í húsasmíði við VMA. Þetta er annar hópurinn sem hefur nám í kvöldskóla í húsasmíði við skólann en fyrsti hópurinn hóf nám sitt haustið 2021 og brautskráðist sl. vor.

Reynslan af kvöldskólanum hefur verið mjög góð og mikil þörf hefur reynst fyrir nám af þessum toga sem nemendur taka til hliðar við daglega vinnu sína. Námið tekur tvö ár eða fjórar annir. Flestir nemendur í kvöldskólanum, sem eru tólf að þessu sinni, hafa á einn eða annan hátt unnið við smíðar, sumir eru í fullu starfi hjá byggingarverktökum og hafa því safnað vel í reynslupokann. Og margir hafa lokið almennum grunnfögum en þurfa að bæta við sig faglegum bóknámsáföngum eins og t.d. fagteikningu.

Kennt er eftir klukkan fimm á daginn, þrjá daga í viku, og skipta kennarar við byggingadeildina með sér kennslunni, sem er bæði verkleg og bókleg.