Fara í efni

Kvöldskóli VMA í húsasmíði fer vel af stað

Tólf af fimmtán kvöldnemum með Braga kennara.
Tólf af fimmtán kvöldnemum með Braga kennara.

Kvöldskóli í húsasmíði er nú í boði í VMA í fyrsta skipti og eins og vera ber er námið komið í fullan gang. Fimmtán nemendur eru á þessari fyrstu önn kvöldnámsins og eru þeir á öllum aldri.

Þetta er fjögurra anna nám og er kennt samkvæmt samþykktri námsbraut VMA í húsasmíði. Bæði verklegar og fagbóklegar námsgreinar eru kenndar og að hluta er kennt í dreifnámi.

Kennt er frá kl. 17 til 21 þrjá daga í viku, frá mánudegi til miðvikudags. Sumir nemendanna hafa starfað lengi í húsasmíði og aflað sér mikillar reynslu og sækja sér þetta nám til þess öðlast prófgráðu í faginu. 

Þegar litið var inn í kennslustund í kvöldskólanum voru nemendur í verklegu námi undir handleiðslu Braga Óskarssonar en hann og  samkennarar hans í byggingadeild VMA skipta með sér kennslunni. Bragi segir að kvöldskólanemendurnir séu fullir áhuga og vinnusamir og sannast sagna sé erfitt að fá þá til þess að taka kaffihlé!