Fara í efni

Alltaf jafn gaman að hefja nýtt skólaár

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA.
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA.
„Það er í mínum huga alltaf jafn skemmtilegt að hitta nemendur í upphafi skólaárs, bæði þá sem hafa verið hér áður og ekki síður nýnema. Ég hef komið að skólastarfi síðan 1975 og þessi tilfinning hefur ekki breyst. Það er alltaf jafn gaman að hefja nýtt skólaár,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA, en kennsla hefst í dag samkvæmt stundaskrá.

„Það er í mínum huga alltaf jafn skemmtilegt að hitta nemendur í upphafi skólaárs, bæði þá sem hafa verið hér áður og ekki síður nýnema. Ég hef komið að skólastarfi síðan 1975 og þessi tilfinning hefur ekki breyst. Það er alltaf jafn gaman að hefja nýtt skólaár,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA, en kennsla hefst í dag samkvæmt stundaskrá.

„Þetta skólaár leggst bara vel í okkur, eins og alltaf. Það er stórt verkefni fyrir höndum og við reynum að vinna að því eins vel og við getum. Starfsmenn skólans hafa það að leiðarljósi við upphaf skólaárs að hafa gaman af sínu starfi og að nemendum líði sem allra best. Það er von okkar allra að okkur takist að fá nemendur til þess að tileinka sér námsefnið og að þeir standi sig vel í skólanum. En við vitum það jafnframt að það er í mörgum tilfellum afar krefjandi verkefni að fá suma nemendur til þess að tileinka sér námsefnið og stunda skólann vel.
Að mínu mati er helsti styrkur Verkmenntaskólans að koma öllum nemendum sínum til einhvers þroska. Ég tel að skólinn sinni nærsamfélagi sínu vel, við gefum nemendum okkar kost á því að mennta sig til þess að geta búið og starfað í þessu samfélagi áfram, hvort sem það fer í frekara nám eða ekki. Nemendur okkar eru ein af styrkustu stoðum Háskólans á Akureyri, hæsta hlutfall nemenda þar eru fyrrum nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri. Þess vegna vil ég segja að VMA sé að töluverðu leyti sem ég vil kalla nærsamfélagsmiðaður. Ég hef áður bent á mikilvægi þess að Háskólinn á Akureyri þróist að einhverju leyti í þá átt að nemendur í tækninámi hér geti haldið áfram að mennta sig að einhverju leyti hér á svæðinu. Það er ennfremur draumur okkar að unnt verði í framtíðinni að bjóða upp á listnám hér á háskólastigi.
Sjálfbærni er einn af grunnþáttum nýrrar námsskrár og að mínu mati felst m.a. í því að Verkmenntaskólinn sinni sínu nærsamfélagi vel og mennti fólk til starfa hér á svæðinu. Vissulega fara nemendur í burtu til náms eða búsetu en við vitum jafnframt að margir af okkar nemendum, sem að stórum hluta eru frá Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, halda áfram að búa hér og það er svæðinu ákaflega mikilvægt. En því má ekki gleyma að við höfum hlutverki að gegna í mun víðara samhengi því við fáum fjölda nemenda af öllu landinu, sem við viljum sinna sem allra best, og það á við um báða framhaldsskólana hér á Akureyri.“

Tækninám stórkostlega vanmetið
Á tyllidögum ræða stjórnmálamenn og aðrir um mikilvægi þess fyrir framtíð íslensks samfélags að efla beri tæknimenntun í landinu. Hins vegar fylgja þeim orðum oft takmarkaðar efndir.
„Það er mjög góð aðsókn í allt starfs- og tækninám sem við bjóðum upp á. Meira að segja byggingadeildin hefur verið að ná vopnum sínum aftur eftir lægð í kjölfar efnahagshrunsins. Hins  vegar finnst mér að þrátt fyrir miklar umræður undanfarin misseri um mikilvægi tæknimenntunar og tæknistarfa sé tækninám stórkostlega vanmetið í samfélaginu og það hefur því miður átt undir högg að sækja. Til þess að þetta breytist þarf til að byrja með hugarfarsbreytingu í samfélaginu. Það er mjög mikilvægt að tæknigreinum sé gert hátt undir höfði vegna þess að atvinnulífið þarf á því að halda. Það verður hins vegar að segjast alveg eins og er að við Íslendingar erum mjög Latínuskólasinnaðir sem er reyndar skrýtið því við erum að upplagi bænda- og veiðimannasamfélag og hér á Akureyri hefur frá fornu fari verið mikil iðnaðarstarfsemi sem hefur að hluta til byggt á tæknimenntuðu fólki. Ég ítreka það að fyrst og fremst þarf almenna hugarfarsbreytingu hvað þetta varðar í samfélaginu og það þarf ennþá öflugri og víðtækari kynningu á tæknigreinum og þeim störfum sem ungu fólki stendur til boða á þessu sviði. Við höfum séð að Háskólanum í Reykjavík, sem tók yfir starfsemi gamla Tækniskólans, hefur vaxið fiskur um hrygg. Þar hefur verið blandað saman hefðbundnu, bóklegu tækninámi og tæknigreinum. Þarna er orðið til spennandi lærdóms- og vísindasamfélag og ég veit að margir af þeim nemendum sem hafa verið í tækninámi hjá okkur hafa farið í Háskólann í Reykjavík til frekara náms. Vöxtur hans er til marks um að tæknigreinarnar eru þrátt fyrir allt að rétta úr kútnum og það er mjög mikilvægt.
Hér í Verkmenntaskólanum þurfum við að fylgjast vel með þróuninni og bæta okkar á ýmsum sviðum. Við þurfum til dæmis að fara að huga að því að bjóða upp á aukið nám á sviði upplýsingatækni, varðandi margmiðlun og fleira því tengt.“

Hjalti Jón segir að niðurskurður í mörg undanfarin ár  í framhaldsskólakerfinu hafi á vissan hátt hamlað framþróun í tækninámi, enda sé það töluvert dýrara en hefðbundið bóknám. „Það er vissulega ódýrast að kenna bóklegu greinarnar þar sem unnt er að hafa allt að þrjátíu nemendur í hóp á sama tíma og ekki er mögulegt að hafa fleiri en tólf til fjórtán nemendur í hóp í verknáminu. Það þarf fleiri kennara til þess að sinna verklegu námi og það þarf sömuleiðis góðan tækjabúnað sem kostar peninga. Undanfarin ár hefur verið þrengt svo að rekstri framhaldsskólanna að lítið sem ekkert er eftir til tækjakaupa. Það hefur hjálpað okkur mikið að við höfum notið velvilja félagasamtaka og fyrirtækja sem hafa gefið okkur tækjabúnað. Fyrir það erum við afar þakklát og metum mikils.“

Erfiður rekstur framhaldsskólanna

„Rekstur framhaldsskólanna er og hefur verið mjög erfiður og það sér ekki fyrir endann á því. Þess vegna höfum við ekki annan kost en að gera gott úr því sem höfum og eigum og ég finn ekki að það sé neinn bilbugur á starfsmönnum skólans við upphaf nýs skólaárs. Áfram verður hér unnið að þróun námsskrár og ég vonast til þess að í vor getum við kynnt niðurstöður þeirrar vinnu.“
Kjarasamningar kennara eru lausir snemma á næsta ári og segir Hjalti Jón það einlæga von sína að ríkið og félög kennara nái saman um nýjan kjarasamning. „Í síðasta kennaraverkfalli um síðustu aldamót skapaðist mjög alvarlegt ástand og ég vona sannarlega að það gerist ekki aftur. Þá hættu margir nemendur námi og byrjuðu ekki aftur.“

Þrjátíu ára afmæli VMA
Árið 2014 er þrjátíu ára afmælisár Verkmenntaskólans og verður þess minnst með ýmsum hætti á vormisseri. „Við munum vekja athygli á afmælinu á margvíslegan hátt þegar þar að kemur. Á þessum þrjátíu árum er satt best að segja með ólíkindum hversu miklu skólinn hefur áorkað og hann hefur útskrifað marga nemendur, bæði í verk- og bóknámi. Sem betur fer hafa margir af þessum nemendum sest að hér á svæðinu en að sjálfsögðu hafa líka margir hleypt heimdraganum og freistað gæfunnar annars staðar á landinu eða erlendis.“
Á liðnu vori komu í heimsókn í VMA nemendur sem fögnuðu aldarfjórðungs útskriftarafmæli frá skólanum. Sumir nemendanna höfðu vart stigið fæti inn í skólann í öll þessi ár og áttu að vonum erfitt með að rata um húsakynni hans, enda var í þá daga aðeins búið að byggja lítið brot af núverandi húsum skólans. Hjalti Jón segir að á 25 ára afmæli VMA hafi menn talið að skólinn væri fullbyggður, þá hafi hann verið meira og minna í uppbyggingu frá stofnun hans 1984. „Síðustu ár hefur skólinn haldið áfram að stækka og kröfur um sérhæfðara húsnæði og búnað hafa verið að aukast. Við höfum verið að bæta við greinum eins og bifvélavirkjun sem er kennd úti í bæ og listnámið hefur eflst mjög og nánast frá upphafi hefur það verið í of þröngu húsnæði. Vélstjórnargreinarnar hafa sömuleiðis búið við þrengsli og svo má áfram telja. Við erum því farin að reka okkur utan í víða og auk þess vantar betri aðstöðu fyrir nemendur. Við höfum rætt það við bæjaryfirvöld hér á Akureyri að svo kunni að fara að áður en langt um líður verðum við að auka enn við húsnæði skólans og því hefur verið vel tekið en hins vegar þarf ríkið einnig að koma að því borði. Hér innan skólans er starfandi vinnuhópur sem er að fara yfir húsnæðisþörfina og niðurstöður hans munum við leggja fyrir hlutaðeigandi sveitarfélög og ráðuneyti.
Í samvinnu við Akureyrarbæ er unnið að því að deiliskipuleggja lóð skólans. Þegar skipulagið liggur fyrir vitum við betur hvað getum gert og megum gera," segir Hjalti Jón og bætir við að í sumar hafi verið unnið að reglulegu og árlegu viðhaldi innanhúss og sömuleiðis sé þessa dagana verið að laga bílaplanið og lóðina norðan skólans.