Fara í efni

Allt fyrir bragðlaukana

Nemendur í eldhúsinu.
Nemendur í eldhúsinu.
Í grunnnámi matvælagreina er lagður grunnur að frekari námi í matvælagreinum – þ.e. matreiðslu, framleiðslu, matartækni o.fl. Góð aðsókn hefur verið í þetta nám, sem tekur eitt ár, en það samanstendur af 19 einingum í grunnnámi matvæla- og veitingagreina, viðbótareiningum í íþróttum og upplýsingatækni og kynningaráföngum í matreiðslu, framreiðslu og fleiri matvælagreinum.

Í grunnnámi matvælagreina er lagður grunnur að frekari námi í matvælagreinum – þ.e. matreiðslu, framleiðslu, matartækni o.fl. Góð aðsókn hefur verið í þetta nám, sem tekur eitt ár, en það  samanstendur af 19 einingum í grunnnámi matvæla- og veitingagreina, viðbótareiningum í íþróttum og upplýsingatækni og kynningaráföngum í matreiðslu, framreiðslu og fleiri matvælagreinum.

Þegar tíðindamaður heimasíðunnar leit inn í veitingahúsaeldhús matvælabrautarinnar var um þriðjungur nemendanna í grunnnáminu að elda undir handleiðslu Ara Hallgrímssonar. Í þetta skiptið höfðu krakkarnir útbúið forrétt – smásnittur, í ofninum voru hægeldaðar kjúklingabringur og síðan var ljúffengur eftirréttur á borðum.

„Hér eru krakkarnir í verklegu námi og við reynum að ýta þeim út í djúpu laugina. Til þess er ætlast að þau komi vel undirbúin í tímana og hafi kynnt sér á bók það sem þau eru að fara að fást við í tímanum. Hvort sem þessir krakkar halda áfram námi á þessari braut eða fara í einhverja allt aðra átt er enginn vafi í mínum huga að það sem þau læra hér nýtist þeim vel," segir Ari Hallgrímsson um þennan áfanga sem er VÞS 206.

„Ég byrjaði á matvælabrautinni síðastliðið haust. Mig langaði að prófa eitthvað allt annað en að sitja allan daginn yfir námsbókum. Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hversu margt gagnlegt maður lærir hér,“ segir Guðrún Ásgeirsdóttir frá Húsavík. „Ég er ekki ákveðin hvað ég  geri í framhaldinu. Ég útiloka ekki að ég haldi áfram á þessu sviði, en ég geri það í það minnsta ekki strax, mér finnst ég vera of ung til þess,“ segir Guðrún.

Alda Rós Ágústsdóttir frá Akureyri byrjaði sömuleiðis sl. haust á matvælabraut. „Alveg síðan í 7. eða 8. bekk hef ég haft áhuga á að læra að verða kokkur, enda hef ég trú á að þetta sé skemmtilegt starf. Námið er skemmtilegt og áhugavert og félagsskapurinn er góður. Við sem erum í þessum hóp þekkjumst vel, enda erum við mikið saman. Þetta er sterkur kjarni,“ segir Alda Rós og játar því þegar hún er spurð um hvort hún sé farin að elda meira heima fyrir fjölskylduna en áður.

 

oskarthor@vma.is