Fara í efni

Aldrei spurning í okkar huga

Sigurður Pétur (til vinstri) og Fannar Már.
Sigurður Pétur (til vinstri) og Fannar Már.

Ætli nemendur sér að fara í vélstjórnarnám, bifvélavirkjun eða málm- og véltæknigreinar þurfa þeir að hafa lokið tveggja anna námi í grunndeild málm- og véltæknigreina. Nú stunda tæplega fjörutíu nemendur nám í grunndeildinni. Tveir þeirra voru teknir tali í vikunni þegar þeir unnu ásamt bekkjarfélögum sínum að því að renna litla kertastjaka – Fannar Már Jónsson og Sigurður Pétur Unnarsson. Báðir komu þeir í VMA beint úr grunnskóla, Fannar Már var í Lundarskóla á Akureyri og Sigurður Pétur í Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu. Þeir voru aldrei í vafa um að velja að fara í grunndeild málm- og véltæknigreina.

„Það kom einhvern veginn aldrei neitt annað til greina hjá mér en að fara þessa leið í námi,“ segir Fannar Már. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á vélum og tækjum og það hefur örugglega líka haft sitt að segja að pabbi er bifvélavirki. Ég set stefnuna á að fara í vélstjórnarnám að loknu grunnnáminu hér, ég er mjög spenntur fyrir því og get alveg hugsað mér í framtíðinni að starfa annað hvort sem vélstjóri á skipum eða í landi, t.d. í virkjunum. Eins og staðan er núna kemur einnig til greina að taka það sem þarf til viðbótar til þess að ljúka rafvirkjuninni,“ segir Fannar Már og svarar því játandi að grunnnámið fari vel af stað. „Já, mér líkar þetta vel. Eins og í öðru námi snýst þetta um að hafa áhuga og nenna að gera hlutina vel,“ segir Fannar Már.

Sigurður Pétur Unnarsson fæddist á Akureyri, ólst upp í Skagafirði en býr núna með fjölskyldu sinni í Holti í Svínadal, þar sem búið er með sauðfé og hross. Hann segir ekkert launungarmál að hann stefni eindregið að því að verða bóndi í framtíðinni og horfi á námið í VMA sem góðan grunn áður en hann fari á Hvanneyri. Hann stefni að því að fara í vélstjórn og það heilli líka að taka grunninn í bæði bifvélavirkjun og stálsmíði. „Strax í fyrsta bekk í barnaskóla ákvað ég að verða bóndi og ég horfi á vélstjórnarnám hér í VMA sem góðan grunn fyrir búskap – áður en ég fer á Hvanneyri. Ég hef alltaf verið í kringum vélar, bæði að vinna á þeim og gera við þær enda er það svo að í sveitinni er mikilvægt að geta brugðist skjótt við ef tækin bila,“ segir Sigurður Pétur.