Fara í efni

Áhyggjur vegna yfirvofandi verkfalls

Frá fundi nemendafélaga VMA og MA í Kvosinni.
Frá fundi nemendafélaga VMA og MA í Kvosinni.
Þann 6. febrúar sl. efndu nemendafélög VMA og MA til fundar í Kvosinni, samkomusal MA í Hólum, vegna kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins. Fjórir nemendur í FJÖ173, Andri Freyr Sverrisson, Anna Karen Sigurjónsdóttir, Katrín Gunnarsdóttir og Sigurgeir Kristjánsson, unnu eftirfarandi frétt um fundinn í Kvosinni:

Þann 6. febrúar sl. efndu nemendafélög VMA og MA til fundar í Kvosinni, samkomusal MA í Hólum, vegna kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins. Fjórir nemendur í FJÖ173, Andri Freyr Sverrisson, Anna Karen Sigurjónsdóttir, Katrín Gunnarsdóttir og Sigurgeir Kristjánsson, unnu eftirfarandi frétt um fundinn í Kvosinni:

"Mikill samstöðutónn var meðal þeirra sem sóttu fund nemendafélaga framhaldsskólanna á Akureyri, Þórdunu og Hugins, fimmtudaginn 6.febrúar um stöðuna í kjarabaráttu framhaldsskólakennara og yfirvofandi verkfall. Málþingið var haldið í Kvos Menntaskólans á Akureyri  þar sem fjölmargir nemendur bæði VMA og MA hittust og fóru yfir stöðu mála.

Troðið var út að dyrum, formenn nemendafélaganna héldu ræður og eftir fundinn var ljóst að óhugur var meðal manna um að langvarandi verkfall myndi hafa skaðlegar afleiðingar fyrir þeirra skólagöngu, sérstaklega útskriftarnema og iðnnema, en þó voru þeir sammála um að styðja eindregið við bak kennara í sinni baráttu. 
Félag framhaldsskólakennara er í fullum gangi með kjarabaráttu sína og undirbýr allsherjarverkfall í mars, náist ekki að semja fyrir þann tíma. Samningar við stéttina urðu lausir í lok janúar, en kjarasamningum við ríkið var hafnað seinnihluta síðasta árs.

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, lýsti skoðun sinni á málinu og túlkaði einnig skoðun meðlima félagsins í viðtali við Vísir.is:
„Það er morgunljóst. Hver sá sem skoðar kjaramál og launaþróun í framhaldsskólum áttar sig á því að þarna er stórkostlegur vandi á ferðinni,“ segir hún. Það sé ekkert launungarmál að ef engar úrlausnir komi áður en kjarasamningar losni í lok janúar verði staðan vond. „Það er mjög ámælisvert að stjórnvöld ætli að sitja með hendur í skauti og ekkert að aðhafast til að afstýra vondum málum,“ segir hún.

Starf kennarans vanmetið
Bjarni Karlsson formaður Hugins hafði þetta að segja í ræðu sinni:
„Með þessum fundi viljum við aðallega sýna okkar stuðning við kennara í kjarabaráttu sinni. Framhaldskólanemar i Reykjavík hafa núna safnast saman fyrir utan alþingishúsið til að mótmæla slökum kjörum kennara.
Það er þó ekki það eina, en við vildum líka útskýra stöðuna og hvað sé í gangi fyrir þeim sem ekki vita það nú þegar.  Þetta snýst um launaleiðréttingu, ekki launahækkun. Starf kennarans er vanmetið og þau lágmarkslaun sem ríkið greiðir fyrir það eru næstum hlægileg.
Það er yfirvofandi verkfall, það er alveg á hreinu. Það er ekki gripið til þeirra ráða nema sem lokaúrræðis, ill nauðsyn en nauðsyn þó. Verkfall er ekki gott fyrir neinn. Tekjutap hjá kennurum, sem er ekki gott. Við missum tíma úr skólanum, en þó að við séum minna í skólanum fækkar ekki verkefnunum. Álagið verður einfaldlega meira þegar skólahald hefst aftur. Þetta er sérstaklega leiðinlegt fyrir útskriftarnema, þar sem við höfum mikið að gera en ekkert tækifæri á næsta ári til að bæta það upp.
Við erum hér til að þrýsta á samninganefnd ríkisins til að leiðrétta kjör kennara. Við verðum að standa saman til að ná þeirri útkomu sem við viljum.”

Meira en bara námsefnið
Á fundinum lagði formaður Þórdunu, Hólmfríður Lilja Birgisdóttir, orð í belg og sagði:
„Nú hafa slæm kjör kennara okkar knúið þá til þeirra örþrifaráða að boða verkfall. Ég vil benda ykkur á að verkfall er ekki frí, verkfall er lognið á undan storminum. Ef verkfall verður í tvo mánuði mun námsefni þessarra tveggja mánaða ekki falla niður heldur þarf að hraða yfirferð og vona það besta þegar að lokaprófum kemur. 
Hvaða áhrif getur verkfall haft á okkur? Það mun t.d. hafa gríðarleg áhrif á verklegar brautir. Hvernig eiga þeir sem eru að læra t.d húsasmíði að byggja sumarhús sem lokaverkefni á nokkrum vikum þegar þeim eru ætlaðir fjórir mánuðir í það verk. Hvernig eiga þeir sem sækja nám fjarri heimili og hafa þurft að safna fyrir því að vera hér að hafa efni á því að sitja og bíða og vona að önnin muni nýtast þeim. 
Seinast þegar verkfall var í framhaldskólum voru margir nemendur og kennarar sem sneru ekki aftur í skólann. En af hverju eru kennarar að boða verkfall? Jú, vegna lélegra kjara. Er það eðlilegt að ég, ómenntuð 18 ára stelpa, geti fengið sambærileg laun við það að steikja hamborgara og háskólamenntaður kennari með starfsreynslu? Það að einhver geti fengið sé hamborgara og franskar á innan við tíu mínutum er ekki jafn mikilvægt og menntun okkar. 
Verkfall er slæmt fyrir alla, bæði kennara og nemendur, því verðum við að standa saman og styðja við bakið á kennurum okkar til að þrýsta á stjórnvöld  að semja sanngjarnt við kennara. Ég veit allavega að ég þekki kennara sem hafa kennt mér mun meira en það sem stendur á kennsluáætlununum, hafa kennt mér að sýna umburðarlyndi, kennt mér að skipuleggja mig og gefast aldrei upp, sama hvað. Við erum ekki að mótmæla verkfalli heldur erum við að mótmæla ástæðum verkfallsins.”
Það er nokkuð ljóst að nemendur eru á sömu nótum og kennarar og standa fast við bakið á kennurum sínum og óttast einnig að vorönn verði ógild og vilja því sjá lausn sem fyrst á launamálum kennara."

Nemendur í FJÖ173
Andri Freyr Sverrisson
Anna Karen Sigurjónsdóttir
Katrín Gunnarsdóttir
Sigurgeir Kristjánsson

Hér eru myndir sem Helgi Freyr Sævarsson tók í Kvosinni.