Fara í efni

Eitt og annað áhugavert

Annar tveggja Prowise snjallskjáa sérnámsbrautar.
Annar tveggja Prowise snjallskjáa sérnámsbrautar.

Síðastliðinn miðvikudag var efnt til málstofu í VMA þar sem nokkrir starfsmenn sögðu frá ýmsu áhugaverðu úr starfinu í skólanum í vetur.

Andleg líðan nemenda í Covid
Jóhanna Bergsdóttir sálfræðingur VMA fjallaði um líðan nemenda skólans í Covid faraldrinum. Hún sagði að nemendur hefðu lýst áhyggjum af ýmsum toga vegna farsóttarinnar. Í viðtölum við nemendur hafi komið fram að þeir hafi ekki verið hræddir við að smitast af veirunn, miklu frekar hafi þeir óttast að smita aðra.
Jóhanna sagði að sl. vor, þegar Covid-faraldurinn hafi skollið á, hafi verið erfitt andlega fyrir nemendur en haustönnin hafi þó verið enn erfiðari. Ástæðan hafi einfaldlega verið það bakslag sem varð í faraldrinum eftir að covidfrítt sumar. Nemendur hafi horft til eðlilegs skólastarfs sl. haust en þær vonir hafi síðan brugðist, sem kunnugt er, og stór hluti bóklegs náms hafi verið meira og minna í fjarnámi á haustönninni. Jóhanna sagði að stúlkur hafi upplifað meiri þunglyndiseinkenni en strákar vegna ástandsins og verið hræddari um að missa tengsl við vini sína. Hins vegar hafi stelpum líkað betur en strákum að geta unnið verkefni sín heima á tímum Covid. Jóhanna sagði að nemendur hafi nefnt sem neikvæða hlið á náminu á kórónuveirutímum að þeir hafi ekki átt kost á að fá jafn mikla aðstoð í náminu og ef þeir væru í staðnámi.
Jóhanna nefndi að rannsóknir sýndu að almennt ættu 4-6 prósent framhaldsskólanema við einhvers konar þunglyndi að etja.

Language learning with Netflix
Kórónuveirufaraldurinn gerði það að verkum að kennarar leituðu margra nýrra leiða í kennslunni. Auður Inga Ólafsdóttir kennir spænsku í VMA. Hún segir að í Covid hafi hún komist í samband við kennara í Bandaríkjunum sem benti henni á áhugavert forrit til þess að nota í tungumálanáminu. Um er að ræða Language learning with Netflix sem gerir nemandanum kleift að horfa á kvikmyndir og þætti á því tungumáli sem hann er að læra. Með þessu móti byggja nemendur smám saman upp orðaforða í tungumálinu. Forritið gerir einnig kleift að vinna verkefni upp úr efninu og er því, að sögn Auðar Ingu, afar notendavænt. Auður segist einnig hafa notað Google Earth forritið með góðum árangri í spænskukennslunni, það gefi mjög skemmtilega möguleika í að tengja saman tungumálakennsluna og viðkomandi land, stæðhætti og fólk.

Delphi kennslumat
Þórhallur Tómas Buchholz kennir á rafiðnbraut. Hann nefndi að í kennslu væru kennarar eðli málsins samkvæmt oft að meta nemendur með hinum ýmsu verkefnum en minna væri um að nemendur hefðu möguleika á að leggja mat á kennara. Hann sagðist hafa tekið upp svokallað Delphi kennslumat og lagt fyrir nemendur og þar gefist þeim kostur á að koma á framfæri skoðunum sínum á sér sem kennara og kennslunni. Kallað væri eftir bæði jákvæðum og neikvæðum hlutum í því skyni að færa hlutina til betri vegar, ef ástæða væri til. Þórhallur Tómas segist hafa góða reynslu af þessu kennslumati, það sé jákvætt fyrir bæði nemendur og kennara. Um sé að ræða nafnlausa könnun sem allir geti tekið þátt í og hún gefi kennaranum oft óvænt sjónarhorn á kennsluna, skipulag og atferli.

Prowise skjáir
Á þessu skólaári voru teknir í notkun tveir snjallskjáir fyrir kennslu á sérnámsbraut VMA. Daníel Freyr Jónsson og Hafdís Björg Bjarnadóttir kennarar við brautina gerðu grein fyrir notagildi skjáanna og sýndu hvaða fjölbreytta möguleika þeir byðu upp á. Þessir skjáir eru af gerðinni Prowise og geta nýst vel fyrir kennslu í öllu milli himins og jarðar.