Fara í efni

Aðstoða nemendur með les- og talnablindu

Töluverður hópur nemenda glímir við bæði les- og talnablindu og þarf því sérstök úrræði í námi. Í VMA er lögð áhersla á að leggja þessum nemendum lið eins og kostur er.

Töluverður hópur nemenda glímir við bæði les- og talnablindu og þarf því sérstök úrræði í námi. Í VMA er lögð áhersla á að leggja þessum nemendum lið eins og kostur er.

„Ég get ekki sagt með vissu hversu margir nemendur hér eiga við lesblindu eða dyslexiu að etja,“ segir Emilía Baldursdóttir, námsráðgjafi og kennari við VMA.  „Hins vegar eru tæplega þrjú hundruð nemendur sem eiga hér á hverju ári rétt á lengri próftíma. Langflestir glíma við lesörðugleika en einnig eru margir sem eiga erfitt með að læra stærðfræði  og í mörgum tilfellum kemur í ljós að þeir eiga við talnablindu að etja. Einnig leitar töluverður hópur nemenda eftir lengdum próftíma vegna kvíða. Núorðið koma flestir nemendur með lesblindu í VMA með greiningu með sér úr sínum grunnskólum og vita því um sína stöðu. En engu að síður er alltaf eitthvað um að nemendur séu greindir hér með lesblindu. Skólaárið 2003-2004 fengum við 67 „aðsendar greiningar“, sem þýðir að nemendur höfðu fengið greiningu  áður en þeir komu í Verkmenntaskólann og 57 greiningar voru þetta skólaár gerðar hér innanhúss.  Langflestar þessara greininga voru vegna lestrarörðugleika nemenda því á þeim tíma höfðum við ekki möguleika og þekkingu, eins og nú, til þess að greina talnablindu. Í það heila voru því 124 ný tilvik um einhver vandkvæði skólaárið 2003-2004. Á síðasta skólaári voru til samanburðar 89 nýjar  „aðsendar greiningar“ og 64 greiningar hér innanhúss.  Sú breyting hefur hins vegar orðið að stærstur hluti greininga sem framkvæmdar voru hér á síðasta skólaári voru stærðfræði- og kvíðagreiningar. Lesgreiningum hefur fækkað og  eru nú á bilinu 10-15 á vetri sem er mjög jákvætt því það segir okkur að flestir nemendur hafa fengið greiningu áður og hafa öðlast færni og þjálfun til þess að takast á við lesblinduna, kunna að nýta sér Hljóðbókasafn Íslands, vita hvernig hægt er að nýta sér tölvutæknina og eru orðnir vanir því að tala án feimni um erfiðleika sína  og upplýsa viðkomandi kennara um að þeir séu  með lestrarvandkvæði.“

Boðið upp á talnablindupróf
Emilía rifjar upp að í kringum 1990 hafi umræðan hafist um dyslexiu og það sé ekki fyrr en mörgum árum síðar sem menn hafi að einhverju ráði einnig beint sjónum sínum að þeim nemendum sem eiga í verulegum erfiðleikum með stærðfræði. „Við erum svo heppin að hafa Ragnheiði Gunnbjörnsdóttur hér í Verkmenntaskólanum sem hefur þekkingu á að leggja talnablindupróf fyrir nemendur sem hafa bókstaflega siglt í strand í stærðfræði. Það hefur komið í ljós að ótrúlega margir nemendur stríða við talnablindu og með þessu prófi höfum við getað hjálpað nemendum, m.a. hafa þeir fengið lengdan próftíma. Þekking kennara á dyslexiu hefur aukist og þeir eru meðvitaðir um að nemendur með þessa greiningu þarf að styðja í námi, eru fúsir til þess og hafa oft frumkvæði að úrræðum. Ég get ekki sagt um hvernig að þessum málum er staðið í öðrum framhaldsskólum en við í VMA höfum fengið hrós fyrir hvernig við styðjum við bakið á þessum nemendum.  Við bjóðum upp á stuðningstíma, bæði stærðfræði- og tungumálakennarar, og hjá nokkrum nemendum höfum við sett inn í stundaskrá sérstaka stoðtíma í stærðfræði. Auðvitað mættum við gera enn meira en við höfum því miður ekki fjármagn í það.“

Margar útgáfur af dyslexiu
Emilía orðar það svo að vissulega sé dyslexia mörgum nemendum erfið vegna þess að hún tefji fyrir þeim á ýmsan hátt. En nemandi með dyslexíu getur engu að síður verið góður og farsæll námsmaður en þarf kannski aðrar nálganir og lengri tíma.  „Það eru til jafn margar útgáfur af dyslexiu og þeir sem greinast með hana. Hjá sumum nemendum er þetta lítils háttar vandamál  en í verstu tilfellunum eru nemendur nánast ólæsir.  Ég minnist eins sláandi dæmis í þessu sambandi. Til mín kom fullorðin kona sem á sínum tíma hafði ekki farið í framhaldsskóla en ákvað að setjast hér á skólabekk á fullorðinsárum. Hún hafði keypt námsbók á skiptibókamarkaði og fyrir tilviljun var inni í bókinni litaglæra, sem komið hefur í ljós að gagnast fyrir suma sem eru með dyslexiu. Hún lagði glæruna yfir eina síðuna í bókinni og þá sá hún allt í einu orðin greinilega og jafnframt sá hún að á milli lína voru eyður, nokkuð sem hún hafði ekki hugmynd um  og hafði aldrei séð áður. Í framhaldinu af þessari uppgötvun kom konan til mín og óskaði eftir að fá dyslexiu-greiningu. Þegar ég spurði hana hvernig hún hefði farið að því að komast í gegnum grunnskólann sagðist hún hafa notað eyrun og hlustað vel eftir því sem fram fór í tímum. En eftir því sem ofar kom í bekki grunnskólans fann hún til vanmáttar og upplifði sig hálfgerðan bjána.“

Möguleiki á lengri próftíma
Emilía segir að Verkmenntaskólinn komi til móts við nemendur með dyslexiu með ýmsum hætti. Til dæmis geti þeir sótt um hálftíma lengingu á prófatíma og í sumum tilfellum geti þeir fengið prófið lesið inn á MP3-spilara og þá upptöku nýti nemendur sér síðan til þess að leysa prófverkefnið. „Til þess að nemendur fái úrlausn sinna mála er mjög mikilvægt að þeir komi til mín. Eldri nemendur sem eiga rétt á lengri próftíma vegna m.a. dyslexiu skrá sig sjálfir en ég þarf að fá nýja nemendur til mín sem vilja óska eftir lengri próftíma til að setja þá inn í hvernig þetta virkar hér. Þetta á við um nemendur með til dæmis dyslexiu, talnablindu eða prófkvíða. Við þurfum að fá staðfestingu frá einhverjum sérfræðingi á viðkomandi sviði sem staðfestir þörfina á því að veita viðkomandi nemanda sérúrræði. Nemendur sem glíma við kvíða geta leitað til hinna námsráðgjafanna hér, Ásdísar eða Svövu, eða Hjalta Jónssonar sálfræðings sem starfar hjá okkur.”

Dugnaður er lykilatriði
Emilía segir að þeir nemendur sem séu með dyslexiu þurfi margir hverjir að leggja mikið að auki á sig í námi. „Dugnaður er lykilatriði og einnig þurfa nemendur sem glíma við þessa erfiðleika að hafa trú á sjálfum sér. Mikilvægt er að nemendur fái snemma á sinni skólagöngu ráð og leiðbeiningar til þess að létta sér róðurinn í náminu.  Hljóðbókasafn Íslands er með hreint frábæra þjónustu og þar geta nemendur nálgast námsefni á hljóðbókum. Þegar nemendur hafa fengið aðgang að safninu geta þeir hlaðið bókum niður og þannig geta þeir sem það þurfa tileinkað sér námsefnið á annan hátt en að lesa það,“ segir Emilía Baldursdóttir.