Fara í efni

Á réttum stað

Rafnar Berg Agnarsson.
Rafnar Berg Agnarsson.

Rafnar Berg Agnarsson er Húsvíkingur á 21. aldursári og stundar nám í vélstjórn í VMA. Hann var annar tveggja fulltrúa VMA í keppni í hönnun vökvakerfa og kælitækni á Íslandsmóti iðn- og verkgreina fyrr í þessum mánuði í Laugardalshöll og hreppti annað sætið í hönnun vökvakerfa.

Rafnar segist hafa ákveðið strax í grunnskóla að fara í vélstjórnarnám. Faðir hans hafi verið til sjós og síðan í mörg undanfarin ár verið með eigin smiðju á Húsavík undir nafninu AKS ehf. Hann hafi því lengi haft vélar og málmsmíði fyrir augunum og það hafi því komið að sjálfu sér að fara þessa leið í námi. Að loknum grunnskóla á Húsavík lá leiðin í Framhaldsskólann á Húsavík þar sem Rafnar var einn vetur en fór síðan í grunndeild málmiðnaðar í VMA og þaðan áfram í vélstjórn. Í vor segist hann ljúka áföngum til stúdentsprófs og öðlast C-réttindi í vélstjórn en til þess að fá D-réttindin verður hann í vélstjórnarnáminu í einn vetur til viðbótar. Hann stefnir að því að taka sveinspróf í vélvirkjun en til þess þarf hann að ljúka ákveðnum lágmarksfjölda stunda í smiðju og hann segist nú þegar vera langt kominn með þann tíma. Hann hefur undanfarin sumur unnið hjá Grími vélaverkstæði ehf á Húsavík og einnig unnið oft um helgar með skólanum, síðast um liðna helgi. „Það hefur verið mikið að gera hjá þeim og því ekki verið vandamál að fá vinnu,“ segir Rafnar en fyrirtækið hefur m.a. verið í stórum verkefnum við Þeistareykjarvirkjun og kísilverið á Bakka. Auk þess að ljúka við D-réttindi vélstjórnar að rösku ári liðnu segir Rafnar vel koma til greina að bæta einu ári við í rafvirkjun. „Ég sé síður en svo eftir því að hafa valið þessa námsbraut, ég er á réttum stað,“ segir Rafnar Berg.

Rafnar Berg og Hjörleifur Helgi Sveinbjarnarson kepptu fyrir hönd VMA í Íslandsmóti iðn- og verkgreina í hönnun vökvakerfa og kælitækni. Þeir félagarnir náðu ekki á verðlaunapall í kælitækninni en Rafnar varð í öðru sæti í hönnun vökvakerfa. Þar var notast við hönnunarforritið FluidSIM. „Undirbúningur minn fyrir keppnina fólst fyrst og fremst í því að læra á þetta forrit. Keppnin skiptist í þrjú verkefni. Fyrst og fremst var gaman að taka þátt í þessu, þetta var ekkert svo stressandi,“ segir Rafnar en hann er ekki óvanur að taka þátt í keppnum því á haustönninni tók hann þátt í Íslandsmótinu í málmsuðu og varð þar í þriðja sæti í MIG-MAG suðu.