Fara í efni

Á fjölgreinabraut með tónlistarívafi

Styrmir Þeyr Traustason.
Styrmir Þeyr Traustason.

Styrmir Þeyr Traustason er nýnemi í VMA, Svarfdælingur í húð og hár, rétt orðinn sextán ára gamall. Styrmir er nemandi á fjölgreinabraut VMA og er samkvæmt upplýsingum Ómars Kristinssonar sviðsstjóra stúdentsprófsbrauta fyrsti nýneminn á fjölgreinabraut til þess að taka námið með tónlistarlegu ívafi því hann er einnig skráður nemandi í Tónlistarskólanum á Akureyri og mun því bæði stunda nám til stúdentsprófs í VMA og Tónlistarskólanum. Á fjölgreinabraut VMA er opin leið fyrir nemendur að sameina tónlistarnám og nám til stúdentsprófs.

Styrmir Þeyr sótti grunnskóla á Dalvík og jafnframt hefur hann verið píanónemandi í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga frá sjö ára aldri og lokið grunn- og miðstigi í píanóleik. Með því að fara á fjölgreinabraut VMA gefst Styrmi kostur á að halda áfram tónlistarnámi sínu, eins og hugur hans hefur staðið til, og um leið að taka allt það nám sem honum ber til stúdentsprófs. Jafnframt segir Styrmir að það hafi miklu ráðið um val hans að fara í VMA að hann hafi þar alla möguleika til þess að taka margar viðbótar einingar í raungreinum.

Í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga nam Styrmir klassískan píanóleik hjá Helgu Bryndísi Magnúsdóttur og Páli Szabo. Páll opnaði honum þó leiðir inn í ýmsa aðra tónheima eins og t.d. djass og dægurtónlist, eins og þetta tóndæmi frá tónleikum sem Styrmir tók þátt í með Kvennakórnum Sölku á Dalvík sl. vor, ber vitni um. Hér sprettir Styrmir heldur betur úr spori í lagi bresku rokksveitarinnar Queen, Don’t stop me now.

„Ég kem til með að verða meira í VMA á fyrstu önninni en síðan eykst hlutur tónlistarnámsins. Páll Szabo, kennarinn minn á Dalvík, mun ekki alveg sleppa af mér hendinni en einnig sæki ég tíma hjá kennurum í Tónlistarskólanum á Akureyri. Auk þess að spila verð ég til að byrja með í tónfræði, skapandi hljóðlist og tónlistarverkefni. Það er ekkert launungarmál að ég hef áhuga á því að starfa eitthvað í tónlist í framtíðinni en ég tel þó vissara að hafa vaðið fyrir neðan mig og þess vegna vil ég hafa góðan grunn í raungreinum til stúdentsprófs, enda hef ég lengi haft áhuga á þeim. Ég hef síðustu mánuði aðeins fengist við að semja tónlist og langar til þess að gera meira af því,“ segir Styrmir Þeyr Traustason.