Fara í efni

186 nemendur brautskráðir frá VMA í dag

Brautskráningarhópurinn á sviðinu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri að lokinni brautskráningu. Mynd:…
Brautskráningarhópurinn á sviðinu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri að lokinni brautskráningu. Mynd: Páll A. Pálsson.

Það var þétt skipaður bekkurinn við brautskrift Verkmenntaskólans á Akureyri í dag enda útskriftarhópurinn stór, 186 nemendur af tuttugu námsbrautum auk meistaranáms að loknu sveinsprófi. Skírteinin voru 219 því 33 nemendur tóku við tveimur og jafnvel þremur skírteinum. Þetta er næst fjölmennasti útskriftarhópur í sögu skólans. Heildarfjöldi útskrifaðra nemenda skólans á þessu skólaári (116 nemendur í desember 2024 og 186 núna í maí 2025) er 302 og eftir því sem næst verður komist hefur skólinn aldrei áður brautskráð jafn marga nemendur á einu skólaári.

Sigríður Huld Jónsdóttir var nú að brautskrá nemendur í síðasta skipti sem skólameistari VMA. Hún hóf mál sitt í dag á því að vitna til fyrstu brautskráningarræðu sinnar í Hofi í desember 2011:

Það eru mörg hjörtu sem slá hratt núna. Þau slá hratt m.a. af stressi yfir því hvort maður líti nú örugglega nógu vel út hér uppi á sviðinu - og á ég þar bæði við nemendur og mig sjálfa sem stend, eins og þau, í fyrsta skipti í þessum sporum hér á sviðinu.

Þannig hófst fyrsta ræða mín sem skólameistari VMA á þessu sviði í desember 2011 þegar ég var settur skólameistari í námsleyfi Hjalta Jóns Sveinssonar sem þá var skólameistari. Hjarta mitt slær enn hratt en núna minna af stressi - meira af stolti og þakklæti.

Í undirbúningi fyrir þessa athöfn kíkti ég á nokkrar eldri ræður, en þessi er sú nítjánda. Í ræðum mínum í gegnum tíðina hefur sama stefið verið í gegnum þær allar; mikilvægi VMA í nærsamfélaginu og fyrir hvað hann stendur og svo vináttan.

VMA hefur alltaf staðið fyrir fjölbreytileika og sveigjanleika í námsframboði og tækifærum til menntunar. Enginn skóli á Íslandi fyrir utan Tækniskólann í Reykjavík býður upp á jafn fjölbreytt námsframboð. Skólinn hefur boðið nemendum upp á sveigjanleika í námi sínu, þeir fá tækifæri til að taka námið á sínum hraða og bæta við sig námi, t.d. með því að taka stúdentspróf með iðn- og starfsnámi, fara í iðn- eða starfsnám að loknu stúdentsprófi, fara í iðnmeistaranám að loknu sveinsprófi eða bæta við sig annarri iðngrein. Þá hefur skólinn undanfarin ár gert eldri nemendum og fólki sem hefur farið í raunfærnimat, tækifæri til að koma í kvöld-, helgar- eða lotunám og mörg bæta við sig áföngum í fjarnámi skólans.

Á undanförnum árum hafa framhaldsskólar á Íslandi breyst mikið, námsframboð er fjölbreyttara og fleiri skólar bjóða upp á námstækifæri fyrir ólíka nemendahópa út frá getu og hæfni þeirra. Kennsluaðferðir hafa breyst, kennaranám hefur breyst, sjálfstæði nemenda er meira í náminu og einfaldara að finna þann farveg í námi sem hentar nemendum á hverjum tíma. Þessar breytingar sjást vel í VMA og kennarar og starfsfólk skólans þurft að bregðast við allskonar áskorunum.

Engu að síður er umgjörð náms og þess námsumhverfis sem er í íslenskum framhaldsskólum ekki alltaf að höfða til nemenda og sérstaklega ekki til ungra karlmanna. Áhugaleysi á námi almennt hjá nemendum af öllum kynjum er jafnframt að aukast um allan heim. Það þarf að rýna getur í gögn og finna leiðir til að auka áhuga ungs fólks á námi. Skólaumhverfið og kerfið sem er utan um það er ekki undanskilið, það þarf að vera opið fyrir breytingum og ganga í takt við samfélagsbreytingar, þarfir og væntingar ungs fólks.

Ég kalla eftir frekari umræðu um framhaldsskólastigið og að hún snúist um eitthvað annað en lokapróf og námsmat eða afturhvarf til stúdentsprófsbrauta frá síðustu öld. Umræðan einkennist um of á skóla en ekki nám og um fortíðina en ekki framtíðina. Ég kalla eftir frekari umræðu á faglegum nótum og að það sé greint betur hvers konar nám þarf inn í framtíðina, hvernig við í framhaldsskólunum þurfum að þróast. En fyrst og fremst þarf að finna út hvernig hægt er að auka áhuga ungs fólks á námi og að ljúka námi hvort sem það er til að undirbúa nemendur fyrir háskólanám eða atvinnulíf. Það þarf að þjálfa gagnrýna hugsun og þjálfa huga og hönd, efla sköpunarkraftinn og virkja nýjar hugmyndir. Þjálfa rökhugsun með því að greina og meðtaka upplýsingar, sannprófa þekkingu og miðla henni. Nú á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu er mikilvægt að þjálfa gagnrýna hugsun, miðla samkennd og efla lýðræðislega umræðu. Ekki síður þurfum við að standa vörð um lýðræðislegt skólastarf án ritskoðunar og afskipta pólitískra afla sem tala gegn gagnrýndu rannsóknarstarfi og umræðu um mannréttindi og lýðræði.

Til þess þarf þor og metnað. En það er ekki nóg að skólar hafi þor og metnað, stjórnvöld þurfa að styðja við þá stefnu sem þau sjálf hafa sett sér. Í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 segir m.a. að framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar velti á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Ég tel okkur öll geta verið sammála því. Það skortir samt allt of mikið á að framhaldsskólum sé gert það kleift að vera það menntakerfi sem skapi nemendum okkar þau tækifæri sem þau sjálf, skólarnir og stjórnvöld stefna að.

Fyrir rúmlega ári síðan var ákveðið að hefja undirbúning að hönnun viðbyggingar við skólann og var skrifað undir samkomulag þess efnis milli ríkisins, sveitarfélaganna á svæðinu og skólans. Síðan hefur ekkert heyrst. Reyndar hafa þrír menntamálaráðherrar verið á þessu rúmlega ári en af því er virðist er enginn að halda þessum byggingaráformum lengur á lofti. Húsnæðismál skólans eru einn af þeim þáttum sem koma í veg fyrir að hægt sé að fjölga nemendum í iðnnámi, eins og stjórnvöld stefna að og spurn er eftir. Innviðaskuldin er líka í framhaldsskólunum, sérstaklega í verknámsskólum þar sem tækjakostur og aðstaða nemenda og starfsfólks er orðin gömul og úr takti við nútímann.

En ég ætla nú ekki að tala meira um eitthvað sem tengist rekstri framhaldsskóla eða pólitík. Við erum ekki komin hingað til þess. Útskriftin er fyrir nemendur og framtíð þeirra ber að fagna.

Líf og fjör á skólaárinu

Skólameistari ræddi síðan um skólastarfið í vetur og þá órjúfa vináttu sem myndist milli nemenda á mótunarárum framhaldsskólans:

Hér á sviðinu eru einstaklingar sem hafa kynnst í VMA og hafa ný vinasambönd orðið til og önnur styrkst. Eitt af því sem okkur er öllum mikilvægt er vinátta. Hún getur breytt lífi okkar og það oftast til góðs. Að eiga góða vini sem taka vinum sínum eins og þeir eru getur verið huggun þegar eitthvað bjátar á hjá okkur. Við lærum svo margt í mannlegri hegðun í gegnum vini okkar. Samkennd, hjálpsemi og að finna að það sé einhver sem þarf á manni að halda en líka hvernig við getum tekist á við mótlæti, því það reynir alltaf á sanna vináttu einhvern tímann. Það koma upp árekstrar og mótlæti og þá þurfum við að kunna að takast á við það. Við þurfum að læra að taka öðru fólki – líka vinum okkar – eins og það er.

Samskipti við annað fólk nærir okkur en getur líka étið okkur upp ef við eigum í erfiðum samskiptum. Lífið er og verður alltaf þannig við munum eiga góða daga og erfiða daga. Það hvernig við byggjum upp samskipti og vináttu við annað fólk verður ekki kennt í skólastofu eingöngu. Við lærum mannleg samskipti með því að umgangast annað fólk og þannig verður til traust og vinátta.

Það hefur verið líf og fjör í VMA á þessu skólaári - og svona af því að stundum er sagt að ekkert hafi verið gert í skólastarfi og félagslífinu þá er gott að rifja það aðeins upp.

Það var haldin nýnemahátíð, nýnemaball, Halloween-draugahús, fleiri böll, árshátíð, jólapeysudagur, söngkeppni, dimission, þátttaka í Gettu betur og haldnir nokkrir gleðidagar sem felast í því að nemendafélagið Þórduna tekur á móti nemendum í upphafi skóladags og færir þeim gleði, oftast í formi einhvers matarkyns, s.s. heitt kakó og mandarínur á aðventunni, bollur á bolludaginn og skúffukaka fylgdi hækkandi sól. Nemendafélagið lét hanna nýtísku skólapeysur og galla sem rokseldust. Við héldum fjölmennt Opið hús og Vorhlaup og það var kosin ný stjórn nemendafélagsins. Það er byggt frístundahús og smáhýsi af nemendum byggingadeildar og nemendur í stálsmíði smíðuðu kerrur. Frístundahúsið má finna á fasteignavefnum og sértu í sumarbústaðarhugleiðingum þá færðu ekki betra hús og um að gera að gera tilboð. Siðast þegar ég vissi var enn óseld ein kerra. Þetta er of gott tækifæri til að nota ekki til að auglýsa. Nú, nemendur í kjötiðn breyttu kjötskrokkum í steikur, pylsur og álegg og nemendur í matreiðslu elduðu dýrindis allt upp í sex rétta máltíðir sem einhverjir þurftu að borða, m.a. við starfsfólkið.

Íslandsmót iðngreina var haldið í Laugardalshöll í mars og þar eignuðumst við Íslandsmeistara í rafvirkjun og rafeindavirkjun auk þess sem einn nemandi í rafvirkjun var í 1. sæti í forritunarkeppni rafvirkja.

Nokkur lið frá VMA tóku þátt í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla sem fram fór í Smáralind nú í vor. Fimm lið nemenda á viðskipta- og hagfræðibraut VMA kepptu fyrst við 140 fyrirtæki úr flestum framhaldsskólum á Íslandi og komst eitt lið í lokakeppnina þar sem 30 lið kepptu. Liðið stóð sig frábærlega í harðri keppni. Nemendur á listnáms- og hönnunarbraut sýndu lokaverkefni sín hér í Hofi og kvöldskólanemendur í Deiglunni og flestir nemendur hér á sviðinu skila lokaverkefnum á sínum brautum.

Erlent samstarf hefur verið með miklum blóma i vetur. Nemendur og starfsfólk taka á móti gestum og taka þátt í ferðum og verkefnum erlendis sem aldrei fyrr. Nemendum og starfsfólki VMA gefast dýrmæt tækifæri í gegnum erlent samstarf, sem er reynsla sem þátttakendur búa að alla ævi. Til Akureyrar hafa komið á annað hundrað manns í gegnum hin ýmsu verkefni sem VMA tekur þátt í og rúmlega 100 nemendur og starfsfólk skólans farið erlendis til að taka þátt í samstarfsverknum sem efla víðsýni, fólk kynnist nemendum, starfsfólki og framhaldsskólastarfi í öðrum löndum. Við getum með stolti sagt að VMA sé í fararbroddi hvað varðar erlend samstarfsverkefni á Íslandi en langflest verkefnin eru unnin með styrkjum í gegnum Erasmus+ menntaáætlunina.

Það er því sannarlega af nógu af taka í VMA og þetta er alls ekki tæmandi listi yfir það fjölbreytta og frábæra starf sem starfsfólk og nemendur vinna að á hverju skólaári.

Tónlistaratriði við brautskráninguna

Tónlistaratriði við brautskráninguna fluttu Ólöf Alda Valdemarsdóttir og Birna Karen Sveinsdóttir.
Ólöf Alda, brautskráningarnemi af starfsbraut, söng ABBA-lagið Slipping through my fingers úr söngleiknum Mamma Mía, íslenskan texta gerði Þórarin Eldjárn. Ólöf hefur á námstíma sínum í VMA tekið þátt í uppsetningum hjá Leikfélagi VMA, keppt í Sturtuhausnum - Söngkeppni VMA og hefur alltaf verið tilbúin að bjóða fram krafta sína í tengslum við viðburði í skólanum.
Birna Karen Sveinsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut, söng lagið Næsta líf sem er eftir tónlistarkonuna GDRN. Birna Karen hefur tvisvar tekið þátt í Sturtuhausnum – Söngkeppni VMA, sem hún vann á þessu skólaári og var þar að leiðandi fulltrúi skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna í apríl sl., þar sem hún stóð sig mjög vel.

Sviðsstjórar brautskráðu

Sviðsstjórar skólans brautskráðu nemendur í dag:
Unnur Ása Atladóttir, sviðsstjóri iðn- og starfsnáms, brautskráði 88 nemendur af níu námsbrautum innan sviðsins og luku 15 þeirra einnig stúdentsprófi.
Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og fjarnáms, brautskráði 85 nemendur, 55 nemendur af stúdentsprófsbrautum skólans, 4 sjúkraliða, 4 félagsliða, þar af tvo einnig með stúdentspróf, og 22 iðnmeistara, sem allir hafa stundað nám sitt í fjarnámi.
Bryndís Inda Stefánsdóttir brautskráði 12 nemendur af sérnáms- og starfsbrautum. Nemendur á þessum brautum eru í einstaklingsmiðuðu námi og fá fjölbreytt tækifæri í námi sínu við skólann.

----

Þá skal þess getið að Sigríður Huld skólameistari afhenti Aldísi Völu Gísladóttur prófskírteini sitt sem sjúkraliði fyrir hönd skólameistara Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en þar hefur Aldís Vala stundað nám sitt.

Blómvendir og ræða brautskráningarnema

Eins og venja er til þakkar VMA þeim nemendum sérstaklega með blómvöndum sem hafa lagt ríka hönd á plóg í félagslífi skólans eða staðið sig sérstaklega vel sem fulltrúar skólans. Helga Jónasdóttir, aðstoðarskólameistari, afhenti eftirtöldum nemendum blómvendi við brautskráninguna í dag:

Ingólfur Óli Ingason – Leikfélag VMA.
Ólöf Alda Valdemarsdóttir – Leikfélag VMA – þátttaka í Sturtuhausnum.
Sigrún Karen Yeo – Leikfélag VMA – skipulag dimiteringar.
Óliver Pálmi Ingvarsson – Íslandsmeistari í rafvirkjun
Droplaug Dagbjartsdóttir – Mín framtíð, verðlaun fyrir forritunarhlutann.
Birna Karen Sveinsdóttir – hefur tekið þátt í Sturtuhausnum – Söngkeppni VMA og var fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólann 2025.
Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson - hefur náð mjög góðum árangri í stærðfræðikeppnum hér innanlands og verið landsliði Íslands á Ólympíuleikum í stærðfræði og Norrænu stærðfræðikeppninni.

Ávarp brautskráningarnema að þessu sinni flutti Hafey Hvítfeld Garðarsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut. Ávarp hennar má sjá í annarri frétt hér á heimasíðunni.

Að lokum

Í lok brautskráningarinnar í dag vék Sigríður Huld máli sínu að brautskráningarnemum og starfsfólki skólans:

Jæja, kæru brautskráningarnemendur, til hamingju með árangurinn - þið eruð öll sigurvegarar. Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafið þurft að leggja á ykkur mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til - því hér eruð þið nú. Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með móðurmálið ykkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og öllu því fólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. En fyrst og fremst, berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni.

Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Það er sagt um þessi svokölluðu framhaldsskólaár að þá kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt. Ég veit að það eru vinahópar í þessum útskriftarhópi og kannski fylgjast einhver ykkar áfram að í námi eða störfum í framtíðinni – en hjá öðrum skilja leiðir á vissan hátt nú við brautskráningu. Vináttan verður áfram til staðar, viðhaldið henni. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.

Að lokum vil ég tala til starfsmanna VMA. Ég þreytist seint á því að segja það hve stolt ég er af starfsmannahópunum í VMA – og þið sjáið afrakstur vinnu ykkar hér á sviðinu fyrir aftan mig. Önn eftir önn sjáið þið á eftir nemendum ganga út í lífið með þekkingu og hæfni. Ykkar fagþekking og hæfni fer áfram með útskriftarnemendum í lok hverrar annar en um leið vitið þið að það verður nýr hópur að hausti sem bíður eftir ykkur. Enn fleiri sem þið hafið tækifæri til að sjá þroskast og dafna sem einstaklingar og í sínu námi. Ferðalag þeirra er líka ferðalag ykkar – og VMA.

Samfélagsbreytingar og breytingar í heiminum dynja á okkur, allt þetta hefur áhrif á störf ykkar. Það eru fram undan breytingar sem tengjast námi og kennslu. Við í VMA eigum að hafa okkar áhrif þar, við þurfum að efla nám og námstækifæri í okkar nærsamfélagi og ekki síður hlúa að okkur sjálfum, eflast í starfsþróun og taka nýjum áskorunum og tækifærum fagnandi.

Það verður alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu framtíðarsamfélagi. Í heimi sem er sífellt að breytast og áreitin eru mörg er hlutverk kennara afar mikilvægt. Kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingar þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Áhersla í skólastarfi verður að vera í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jafnrétti í víðum skilningi.

Ég er mjög þakklát fyrir að tilheyra starfsmannahópnum í VMA. Ég er stolt af ykkur, fyrir fagmennsku ykkar og umhyggju fyrir nemendum og þeim gildum sem skólinn stendur fyrir - Kærar þakkir öll fyrir samstarfið á skólaárinu og í gegnum tíðina.