Fara í efni

153 nemendur brautskráðir frá VMA í dag

Nemendahópurinn að lokinni brautskráningu í dag.
Nemendahópurinn að lokinni brautskráningu í dag.

Eitthundrað fimmtíu og þrír nemendur með 169 prófskírteini voru brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í dag við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi.

Skólastarfið
Í yfirlitsræðu sinni fór Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari  yfir skólastarfið í vetur og sagði það hafa gengið mjög vel enda mikill mannauður í starfsfólki og nemendum. Hún rifjaði upp að í desember sl. hafi fyrsti stúdentinn útskrifast frá skólanum samkvæmt nýrri námskrá og hafi hann lokið náminu á tveimur og hálfu ári í stað þriggja. „Sem sýnir hvernig hægt er að samnýta áfangakerfi og fjarnám til að ná markmiðum sínum eins og sá nemandi gerði.  Að sama skapi lýsir þessi árangur skuldbindingu nemanda við markmið sín en ekki síður námið. Í dag erum við svo að útskrifa fyrsta stóra hópinn með stúdentspróf samkvæmt nýrri námskrá og líklega verður þetta síðasti fjölmenni hópurinn sem útskrifast samkvæmt eldri námskrá,“ sagði skólameistari.

Spurningin um forgangsröðun
Hún kvaðst sannfærð um að breytingarnar með nýrri námskrá væru til góðs fyrir nemendur og nýjar áherslur í námi efli nemendur með stúdentsprófi sem sé góður undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi. Með nýrri námskrá sé nám nemenda þéttara á hverri önn miðað við eldra kerfi en nokkur umræða hafi verið um mikið álag á framhaldsskólanemendur tengt þessum breytingum á námskránni.

„Krafan á tíma nemenda er mikil og tengist ekki einungis námi þeirra heldur einnig vinnu með skóla, tónlistarnámi, íþróttaæfingum eða ýmsum félagsstörfum. Krafan um tíma nemenda er ekki bara frá skólunum en einhvern veginn telja allt of margir að það sé eðlilegt að skólinn dragi úr kröfum sínum svo hægt sé að vinna með námi eða stunda íþróttir. Ég tel að bæði foreldrar og nemendur verði að hugsa vel um það í hvað tíminn á að fara og hvenær álag er orðið of mikið. Sé það raunin þarf einhvers staðar að gefa eftir og þess þurfti einnig í eldra kerfi. Við skulum ekki gleyma því að í fjögurra ára námi til stúdentsprófs var meðalnámstíminn rúmlega fimm ár en ekki fjögur. Það sama verður í nýju kerfi, meðalnámstíminn verður meira en þrjú ár. Þar koma áfangaskólar sterkir inn með sveigjanleika í námi þar sem nemendur geta ráðið námshraða sínum sjálfir.“

Mikil vinna að baki við gerð nýrra námskráa
Sigríður Huld greindi frá því að á þessu skólaári hafi verið unnið að nýjum námsbrautarlýsingum í iðnnámi en enn eigi eftir að samþykkja flestar þær brautir af Menntamálastofnun og síðan menntamálaráðherra. Námsskrárbreytingar í iðn- og starfsnámi hafi reynst flóknari vinna en við breytingar á stúdentsprófsbrautunum og allt ferlið tekið lengri tíma. Fleiri hagsmunaaðilar komi þar að og því miður hafi undirbúningur og markmið að breytingum í iðnnámi ekki verið eins skýr og þegar breytingar í námi til stúdentspróf voru kynntar fyrir skólasamfélaginu.

„Kennarar og stjórnendur í VMA geta verið stoltir af þeirri námskrárvinnu sem hefur farið fram bæði í iðnnáminu og á stúdentsprófsbrautum skólans - enda horft til okkar vinnu í öðrum skólum. Takmark okkar var alltaf að hafa áhrif í námskrárvinnunni, vera leiðandi skóli og það hefur okkur tekist. Vil ég nota tækifærið og þakka kennurum og stjórnendum fyrir framlag þeirra til þessarar mikilvægu vinnu og skólaþróunar. Ég get ekki neitað því að það er ákveðinn léttir að þessari vinnu við námsbrautarlýsingar sé að mestu lokið og nú sé horft fram á rólegt skólaár. En með þessu öfluga og skapandi fólki sem starfar í VMA er enginn friður, það er þegar farið að tala um ýmsar breytingar á áföngum, innihaldi náms og skipulagi brauta. Svo endurskoðunin er hafin og við höldum ótrauð áfram við að gera gott nám enn betra fyrir nemendur okkar,“ sagði Sigríður Huld.

Lokaverkefni
Eitt af því sem breytist með nýrri námskrá, að sögn skólameistara, er að allir nemendur skólans skila lokaverkefni á sinni lokaönn. Markmiðið sé að nemendur takist á við metnaðarfullt lokaverkefni sem krefst sjálfstæðis og vandaðra vinnubragða og sé góður undirbúningur fyrir frekara nám. Skólameistari sagði lokaverkefni hafa lengi verið hluta náms nemenda á ýmsum iðn- og starfsnámsbrautum en nú bætist stúdentsprófsbrautirnar við.

„Á vormánuðum fluttu nemendur lokaverkefni sín sem voru afar fjölbreytt og metnaðarfull. Á sumum brautum eru jafnframt haldnar sýningar á lokaverkefnum og má þar nefna útskriftarsýningu nemenda á listnámsbraut en sú sýning var haldin í Ketilhúsinu að þessu sinni og vakti mikla athygli. Verkin voru afar fjölbreytt og mörg hver mjög persónuleg. Þá voru lokaverkefni vélstjórnarnemenda mjög áhugaverð og metnaðarfull en vélstjórnarnemendur kynntu og sýndu verkefni sín í VMA og buðu aðilum úr atvinnulífinu á kynninguna. Í gegnum tíðina hafa ýmis lokaverkefni verið gefin skólanum og þau nýtt til kennslu, jafnvel verið smíðuð sérstaklega til notkunar í daglegu starfi innan skólans eða sem listaverk. Verkefnin á matvælabraut eru meira að segja borðuð og heill sumarbústaður byggður á hverju ári.

Að öllum ólöstuðum verð ég að taka fram að tvær konur sem útskrifast sem  vélstjórar skilja eftir sig mikilvæg verkefni, annars vegar uppgerða vatnsaflstúrbínu sem gefin var skólanum til að nýta í kennslu og hins vegar samantekt og þýðing á námsefni í reglunartækni sem mun nýtast nemendum í vélstjórn,“ sagði skólameistari.

Félagslífið
Sigríður Huld gat þess að félagslífið í skólanum haf verið hefðbundið en öflugt í vetur. Mikið hafi mætt á stjórn nemendafélagsins við skipulag og framkvæmd t.d. nýnemahátíðar, árshátíðar og söngkeppni. Í ár hafi síðan bæst við einn viðburður sem vonandi sé kominn til að vera, svokallaðir Gryfjutónleikar þar sem nemendur innan skólans komu fram með fjölbreytt tónlistaratriði.

Í febrúar setti Leikfélag VMA upp söngleikinn Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur, með tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson. Sýningin var sett upp hér í Hofi og mikill metnaður og vinna lögð í hana. Alls komu um 60 nemendur að sýningunni „og eru nokkrir hér á sviðinu í dag sem hafa verið öflugir liðsmenn leikfélagsins á skólagöngu sinni. Það var jafnframt afar ánægjulegt að hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var gestur okkar á frumsýningunni.“

„Á síðustu árum hefur verið haldið þétt utan um starfsemi nemendafélagsins Þórdunu og stjórnendur og kennarar stutt nemendur. Sem skólameistara finnst mér forréttindi að eiga góð samskipti og samvinnu við nemendafélagið því það er ekki sjálfgefið. Ég vil þakka viðburðastjóra skólans, Pétri Guðjónssyni, fyrir að halda utan um félagslífið en einnig hefur Valgerður Dögg Jónsdóttir, forvarnafultrúi skólans, unnið þétt með nemendafélaginu í vetur. Ég vil jafnframt þakka stjórn Þórdunu fyrir vel unnin störf og hlakka til næsta skólaárs með nýrri stjórn sem nú hefur tekið við,“ sagði Sigríður Huld.

Fögnum fjölbreytileikanum!
Sigríður Huld sagði að VMA vilji standa við það sem skólinn segi að hann sé fyrir alla nemendur. Að sjálfsögðu sé ætlast til þess að nemendur leggi sig fram „en við horfum ekki á einkunnir, stétt eða stöðu þegar við tökum nemendur inn í skólann – við viljum geta boðið nemendum okkar upp á fjölbreytileika því það er það sem bíður nemenda okkar í framtíðinni. Samfélagið þarf á alls konar fólki að halda til að þróast, vaxa og dafna. Við þurfum skapandi fólk, forvitið fólk sem þorir að hugsa út fyrir boxið, þorir að takast á við breytingar og samfélagið verður að hafa vandað fólk sem ber umhyggju fyrir samferðarfólki sínu. Það að búa til einsleitt samfélag þar sem allir eru að fara sömu leið og nota sama farartækið til að fara hana býr til staðnað samfélag. Fögnum fjölbreytileikanum. Fjölbreytileikinn er einmitt eitt af því sem nemendur okkar nefna sem einn af helstu kostum skólans. Sú hæfni sem nemendur okkar fá, að takast á við breytingar og kynnast ólíku fólki sem stefnir í fjölbreyttar áttir, er veganesti sem styrkir þá til framtíðar. Ögrunin er hjá þeim skólum sem taka við öllum nemendum óháð námsgetu og það er jafn mikilvægt að koma þeim áfram í framhaldsskólanum sem þurfa lengri tíma til að ná sínum námsmarkmiðum eins og þeim sem gengur alltaf vel að ná þeim,“ sagði skólameistari.

Brautskráningin
Að þessu sinni brautskráðust 153 nemendur frá skólanum með 169 skírteini, sem skýrist af því að töluverður hópur nemenda útskrifast af fleiri en einni námsbraut. Alls hafa 253 nemendur útskrifast frá VMA á þessu skólaári því  100 nemendur voru útskrifaðir í desember sl.

Í dag brautskráðust nokkrir nemendur með tvö og jafnvel þrjú prófskírteini. Skólameistari gat þess að áfangakerfið bjóði upp á að nemendur geti sett nám sitt saman á fjölbreyttan hátt. Þeir nemendur sem velji að taka iðn- eða starfsnám og bæta síðan við stúdentsprófinu séu á margan hátt mjög vel búnir undir háskólanám. Sérstaklega eigi það við um nemendur sem ætli sér í verk- eða tæknifræði þar sem mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því hvernig sé að starfa við vélar og tæki eða á byggingarstað. Einnig nefndi skólameistari að nokkrir sjúkraliðar hafi einnig lokið stúdentsprófi sem sé afar góður undirbúningur fyrir allt háskólanám í heilbrigðisvísindum.

Brautskráninguna önnuðust Baldvin Ringsted sviðsstjóri verk- og fjarnáms, Harpa Jörundardóttir sviðsstjóri starfsbrautar og brautabrúar og Ómar Kristinsson sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og sjúkraliðanáms.

Viðurkenningar

Fanney Edda Felixdóttir, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut– verðlaun úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum.
Fanney Edda Felixdóttir, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut– verðlaun frá SBA-Norðurleið fyrir bestan árangur í ensku.
Fanney Edda Felixdóttir, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut– Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi og eftirtektarverðan árangur í leiklist og félagsmálum.
Hulda Hrönn Ingadóttir, sjúkraliði– verðlaun frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir bestan árangur í faggreinum sjúkraliða.
Sara Katrín Dmello, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut – verðlaun frá Kvennasambandi Eyjafjarðar fyrir bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum.
Karl Vernharð Þorleifsson, húsasmíði – verðlaun frá Byggiðn – Félagi byggingamanna fyrir bestan árangur í húsasmíði.
Aldís Hansen, vélstjórn – verðlaun frá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri fyrir bestan árangur í vélstjórnargreinum.
Sighvatur Rúnar Pálsson, bifvélavirkjun – verðlaun frá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri fyrir bestan árangur í faggreinum bíliðngreina.
Brynjar Geir Ægisson, rafvirkjun – verðlaun frá Ískraft fyrir bestan árangur í faggreinum rafvirkja.
Arnrún Eik Guðmundsdóttir, nýstúdent af íþrótta- og lýðheilsubraut – verðlaun frá Landlæknisembættinu fyrir bestan árangur í faggreinum íþrótta- og lýðheilsubrautar.
Unnur Eyrún Kristjánsdóttir, nýstúdent af náttúruvísindabraut – verðlaun frá VMA fyrir bestan námsárangur í raungreinum.
Jóhannes Stefánsson, nýstúdent að loknu starfsnámi og Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut– verðlaun frá Pennanum-Eymundsson fyrir bestan námsárangur í íslensku.
Rakel Lind Sveinsdóttir, nemandi á starfsbraut – verðlaun frá Origo fyrir góða þátttöku í skólasamfélaginu og í grunnskólakynningum.
Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut – verðlaun frá danska sendiráðinu fyrir bestan námsárangur í dönsku.
Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut – verðlaun frá Slippfélaginu fyrir bestan árangur í faggreinum myndlistarkjörsviðs listnámsbrautar.
Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut – verðlaun frá A4 fyrir bestan námsárangur á stúdentsprófi.
Fönn Hallsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut – hlaut Hvatningarverðlaun skólameistara VMA. Í umsögn um verðlaunin segir: „Hvatningarverðlaun skólameistara eru veitt nemanda sem hefur sýnt miklar framfarir í námi á námstímanum, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið, verið fyrirmynd eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt. Það er alltaf erfitt að finna þennan verðlaunahafa þar sem svo margir koma til greina og ekki sambærilegir mælikvarðar og einkunnir til að ákveða verðlaunahafann. Sú sem hlýtur þessi verðlaun er nemandi sem hefur á námstíma sínum í skólanum sýnt mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum. Hún snart marga með lokaverkefni sínu á listnámsbraut en verkefnið var mjög persónulegt. Á námstímanum og frá unga aldri hefur þessi nemandi átt við veikindi að stríða en hún hefur ekki látið það hafa áhrif á námið sitt, hún er sannarlega fyrirmynd ungs fólks sem glímir við veikindi ásamt því að nýta reynslu sína í listsköpun sinni.“

Blómvendir til stjórnarmanna í Þórdunu og annarra sem hafa lagt ríka hönd á plóg í félagslífi í skólanum:

Alexandra Guðný Berglind Haraldsdóttir
Fanney Edda Felixdóttir
Kári Ármannsson
Mateusz Swierczewski
Ólafur Göran Ólafsson Gros
Stefán Jón Pétursson
Unnur Eyrún Kristjánsdóttir
Vala Rún Stefánsdóttir

Einnig fékk Friðrik Karlsson vélstjóri blómvönd en hann varð Íslandsmeistari í hönnun vökvakerfa á Íslandsmeistaramóti iðngreina árið 2017.

Vala Rún Stefánsdóttir nýstúdent af náttúruvísindabraut flutti kveðju brautskráningarnema.

Tónlistaratriði við brautskráningarathöfnina í dag fluttu:

Sunna Björk Þórðardóttir, nemandi á félags- og hugvísindabraut. Hún söng lagið Maístjörnuna.
Tinna Björg Traustadóttir, stúdent af fjölgreinabraut. Hún flutti lagið Everytime.
Jóhannes Stefánsson, stúdent að loknu verknámi (útskrifaðist sem rafeindavirki um síðustu jól). Hann flutti lagið Lengi skal manninn reyna.

Ávarp til brautskráningarnema
Í útskriftarathafnarinnar í dag beindi Sigríður Huld skólameistari orðum sínum að brautskráningarnemum: „Jæja, kæru útskriftarnemendur, til hamingju með árangurinn ykkar. Þótt við höfum verið að verðlauna sum af ykkur hér áðan þá eruð þið öll sigurvegarar. Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafa þurft að leggja á sig mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til - því hér standið þið nú.

Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Þið standið nú á krossgötum, ykkar er að velja leiðina áfram. Verið forvitin og hættið aldrei að bæta við ykkur þekkingu og hæfni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Í framhaldsskóla kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni til hvers annars. Takk fyrir að velja VMA sem skólann ykkar. Til hamingju.“