Fara í efni

Andre Sandö Íslandsmeistari í málmsuðu

Íslandsmeistarinn, Andre Sandö, lengst til hægri.
Íslandsmeistarinn, Andre Sandö, lengst til hægri.

Andre Sandö, starfsmaður Útrásar á Akureyri, stóð uppi sem sigurvegari í Íslandsmeistaramótinu í málmsuðu, sem var haldið sl. föstudag, 25. október, í húsnæði málmiðnaðarbrautar VMA. Málmsuðufélag Íslands stóð fyrir keppninni í samstarfi við Iðuna fræðslusetur, VMA og Félag málmiðnaðarmanna Akureyri. Yfirumsjón með keppninni hafði Gústaf Adolf Hjartarson, starfsmaður Iðunnar. Kennarar málmiðnaðarbrautar VMA, með Kristján Kristinsson í broddi fylkingar, unnu kappsamlega að undirbúningi fyrir keppnina.

Ellefu þátttakendur voru í mótinu að þessu sinni og starfa þeir allir í málmiðnaði á Akureyri. Tíu af ellefu hafa verið eða eru í námi á málmiðnaðarbraut VMA. Þátttakendur í mótinu voru:

Útrás:
Andre Sandö
Einir Þ. Kjartansson
Hermann Kr. Egilsson

Norðurstál:
Arnar Freyr Gunnarsson
Vignir Sigurðsson
Brynjar H. Sveinsson

Slippurinn:
Adam Snær Atlason
Víðir Orri Hauksson
Andri Már Ólafsson
Ivan Atanasov Pashev

Undanfarin ár hefur verið forkeppni á Akureyri og síðan hefur lokakeppnin farið fram í Reykjavík. Nú var ákveðið að snúa þessu við, að hafa forkeppni í Reykjavík og lokakeppnina á Akureyri. Ástæðan fyrir þessari breytingu, segir Gústaf Adolf Hjartarson, að hafi einfaldlega verið sú að áhuginn á keppninni hafi ávallt verið meiri á Akureyri en í Reykjavík. Skemmst sé frá því að segja að enginn hafi mætt til leiks í forkeppni í Reykjavík og því hafi bara verið þessi eina keppni til Íslandsmeistara á Akureyri.

Keppnin hófst um kl. 13 sl. föstudag og fengu þátttakendur fjögur verkefni til þess að glíma við; í TIG-suðu, logsuðu, MAG-suðu og pinnasuðu. Að þessu sinni voru suðuhlutir keppenda sjónskoðaðir en oft er bæði sjón- og röntgenskoðað. Verðlaunað var fyrir hverja suðuaðferð, keppendur fengu stig fyrir hvern suðuhlut. Samanlagður stigafjöldi var síðan til Íslandsmeistara í málmsuðu. Verðlaun fyrir þrjú efstu sætin gaf fyrirtækið Gastec og var þannig aðal styrktaraðili keppninnar í ár en fyrirtækið hefur verið starfandi í átján ár og sérhæfir sig í sölu og þjónustu á ýmsum búnaði til málmsuðu.

Verðlaun voru afhent á föstudagskvöldið í Iðnaðarsafninu á Akureyri. Úrslit urðu sem hér segir:

TIG-suða
1. Víðir Orri Hauksson
2. Vignir Sigurðsson
3. Andri Már Ólafsson

Logsuða
1. Andre Sandö
2. Arnar Freyr Gunnarsson
3. Ivan Atanasov Pashev

MAG-suða
1. Víðir Orri Hauksson
2. Andri Már Ólafsson
3. Ivan Atanasov Pashev

Pinnasuða
1. Andre Sandö
2. Andri Már Ólafsson
3. Adam Snær Atlason

Heildarkeppni til Íslandsmeistara í málmsuðu
1. Andre Sandö, Útrás
2. Víðir Orri Hauksson, Slippnum
3. Andri Már Ólafsson, Slippnum

Hér er mynd af þeim þremenningum. Frá vinstri: Andri Már Ólafsson, Víðir Orri Hauksson og Íslandsmeistarinn Andre Sandö.

Slippurinn vann liðakeppnina, stigahæstir voru Víðir Orri, Andri Már og Ivan Atanasov.

Fram kom í máli Gústafs Adolfs við verðlaunaafhendinguna að afar mjótt hafi verið á munum og erfitt að komast að endanlegri niðurstöðu. Hann lauk miklu lofsorði á frammistöðu keppenda og að keppnin hafi tekist með miklum ágætum. Ljóst væri að vel væri staðið að kennslu í málmiðngreinum á Norðurlandi, sem væri afar ánægjulegt.

Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, segir mikilvægt að hlúa að málmsuðu og því sé Íslandsmeistaramótið afar gagnlegt til þess að vekja athygli á greininni og ánægjulegt sé að mótið hafi verið haldið á Akureyri.