Fara í efni  

Verkmenntaskólinn á Akureyri

Kynningabæklingur VMA

Kynningamyndband um VMA

Kort af VMA

Verkmenntaskólinn á Akureyri

Starfsemi Verkmenntaskólans einkennist af námsframboði fyrir alla nemendur, með áherslu á fjölbreytt nám, bæði í iðn- og tækninám ásamt hefðbundnu bóknámi. Skólinn er áfangaskóli með skipulagi sem gerir nemendum kleift að sníða námið að aðstæðum sínum og þörfum. Nemendur geta lokið stúdentsprófi á þremur eða tveimur og hálfu ári í stað þriggja en jafnframt geta nemendur tekið lengri tíma til að klára námið sitt – allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Þá geta nemendur útskrifast af fleiri en einni braut.
Námsvalið sem nemendum stendur til boða er afar fjölbreytt; almennt nám, matvælanám, sjúkraliðabraut, vélstjórnarnám, starfsbraut, hársnyrtinám, byggingagreinar, rafiðngreinar, bifvélavirkjun og málmiðngreinar. Nemendur geta lokið stúdentsprófi af félagsfræðabraut, náttúrufræðabraut, listnámsbraut, íþrótta- og lýðheilsubraut og viðskipta- og hagfræðibraut en einnig geta nemendur  lokið stúdentsprófi með eða að loknu öllu starfs-, iðn- og tækninámi við skólann.


Við skólann er öflugt nemendafélag sem heldur utan um félagslíf nemenda. Haldin er vegleg árshátíð á hverju ári, söngkeppni, Lan-mót og nýnemahátíð. Þá eru starfandi ýmsir klúbbar innan nemendafélagsins s.s. ljósmyndaklúbbur, leikfélag, myndbandsklúbbur og margt fleira.
Skólinn hefur um árabil tekið þátt í ýmsum erlendum samstarfsverkefnum þar sem nemendur fá tækifæri til að taka hluta af starfsnámi sínu erlendis. Þá hefur skólinn tekið á móti nemendum og kennurum frá öðrum löndum.
Nemendur VMA koma alls staðar af landinu og geta nemendur utan Akureyrar sótt um á sameiginlegri heimavist VMA og MA sem er í stuttu göngufæri við VMA. 

Verkmenntaskólinn á Akureyri tók til starfa árið 1984 í nýju húsnæði skólans við Hringteig á Eyrarlandsholti. Fyrsta skólaárið voru nemendur 780 en tæpum 30 árum síðar voru þeir rúmlega 1300. Frá 2017 hafa nemendur verið í kringum 1100 og að auki stunda um 300 nemendur nám í fjarnámsdeild skólans á hverju skólaári. Við skólann starfa hátt í 200 starfsmenn.

Fyrsti skólameistari Verkmenntaskólans var Bernharð Haraldsson en núverandi skólameistari er Sigríður Huld Jónsdóttir.
Rétt er að benda á fróðlegan vef um sögu verkmenntunar við Eyjafjörð.  Bernharð Haraldsson fyrrverandi skólameistari VMA tók saman.

 

 
Verkmenntaskólinn á Akureyri  

Getum við bætt efni síðunnar?

VERKMENNTASKÓLINN Á AKUREYRI

Skrifstofa VMA er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 08:15-12:10 og frá 12:30-15:00. Á föstudögum er opið frá kl 08:15-13:00.