Fara í efni  

Réttindi og skyldur nema

Nemandi er innritaður í skólann þegar hann hefur staðfest umsókn sína með greiðslu innritunargjalds. Um leið samþykkir hann að gangast undir þær skyldur og reglur sem á herðum hans hvíla sem þegn í skólasamfélaginu. Skólastarf lýtur ákveðnum lögmálum eins og hinn almenni vinnumarkaður. Ein meginforsendan fyrir því að starfsemi geti farið fram og árangur náist er að fólk mæti til vinnu/í skólann og uppfylli þær kröfur sem starfið/námið gerir til þess. Skólinn hefur einnig margvíslegum skyldum að gegna gagnvart nemendum sínum og ber honum að veita þeim ýmiss konar þjónustu. Starf skólans einkennist af gagnkvæmri virðingu og nemendur og starfsmenn sýna hver öðrum kurteisi og tillitsemi.

  • Nemendum ber að kynna sér skólareglur. Vanþekking á reglunum leysir þá ekki undan ábyrgð. Um ábyrgð nemenda vísast til 33. gr. a.í lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008

  • Ítrekuð brot á skólareglum og þau sem talist geta verið alvarleg geta varðað brottvikningu úr skóla og fer málið þá fyrir skólaráð áður en endanleg ákvörðun um viðurlög er tekin.

  • Leitast skal við að leysa ágreiningsmál fljótt og vel á vettvangi skólans.

  • Rísi ágreiningur milli nemenda, kennara og/eða annarra starfsmanna sem ekki tekst að finna lausn á skal vísa málinu til viðkomandi sviðsstjóra og/eða skólameistara sem tekur málið til umfjöllunar og ákvörðunar. Uni málsaðilar, þar með talið forráðamenn nemenda yngri en 18 ára, ekki niðurstöðu í málinu má vísa því til Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

  • Við meðferð mála er farið að lögum um framhaldsskóla, lögum er varða meðferð og neyslu tóbaks- og vímuefna, svo og stjórnsýslulögum, lögum um meðferð persónuupplýsinga og öðrum þeim lögum er varða kunna þau mál sem til meðferðar koma.

  • Brot á almennum hegningarlögum verða kærð til lögreglu.

  • Verði nemandi uppvís að því að brjóta skólareglur er starfsmönnum skólans heimilt að áminna hann sé um að ræða almenn rými skólans. Sé um að ræða ítrekuð brot á skólareglum ber kennurum, öðrum starfsmönnum og nemendum skólans að tilkynna þau til skólameistara eða aðstoðarskólameistara, sem veita nemanda skriflega áminningu. Foreldrar/forráðamenn ólögráða nemenda eru látnir vita fái nemandi skriflega áminningu.

Í skriflegri áminningu skal koma fram:

  • að nemandanum er gefinn kostur á að bæta ráð sitt

  • tilefni áminningarinnar og þau viðbrögð sem fylgja brjóti nemandi aftur af sér

  • að nemandanum sé gefinn kostur á að andmæla áminningunni og skal tímafrestur hans til þess tilgreindur

 

 

Uppfært 7. september 2015 (AMJ).
Getum við bætt efni síðunnar?

VERKMENNTASKÓLINN Á AKUREYRI

Skrifstofa VMA er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 08:15-12:10 og frá 12:30-15:00. Á föstudögum er opið frá kl 08:15-13:00.