Fara í efni

Yrsa mætir á ritlistakvöld á Lyst í kvöld

Í kvöld, fimmtudagskvöldið 26. október kl. 20-22, verður ritlistakvöld Ungskálda 2023 á veitingastaðnum LYST í Lystigarðinum á Akureyri. Leiðbeinandi verður Yrsa Sigurðardóttir sem kunn er af fjölda glæpasagna og barnabóka sem hún hefur skrifað á liðnum árum. Ritlistakvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á ritlist og er þetta kjörið tækifæri til þess að heyra það sem Yrsa hefur fram að færa og hitta önnur skáld og lesa jafnvel upp. Aðgangur er ókeypis en vegna veitinga sem verða í boði væri gott að áhugasamir skrái sig hér.

Ritlistakvöldið er einskonar upptaktur að árlegri ritlistakeppni Ungskálda 2023. Veitt verða peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Engar hömlur eru á texta, hvorki efnistök né lengd. Skilyrði er þó að textinn sé á íslensku og sé eigið frumsamið hugverk.
Skilafrestur í ritlistakeppnina verður til miðnættis 16. nóvember nk. en úrslit kunngjörð þann 7. desember á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Á síðasta ári fékk Mars Baldurs, nemandi í VMA, fyrstu verðlaun í þessari ritlistakeppni fyrir smásöguna Þágufallssýki.