Fara í efni

Viðurkenningin er mér mikil hvatning

Selma Dís, Mars og Guðrún María. Mynd. Akureyri.is
Selma Dís, Mars og Guðrún María. Mynd. Akureyri.is

„Þetta kom mér mjög á óvart, ekki síst þegar ég heyrði hversu mörg verk bárust í keppnina,“ segir Mars Baldurs, nemandi á fjölgreinabraut VMA, sem hlaut fyrstu verðlaun í ritlistakeppninni Ungskáld 2022 fyrir smásöguna Þágufallssýki. Úrslit ritlistakeppninnar voru kunngjörð á Amtsbókasafninu á Akureyri í gær.

Alls bárust 57 verk í Ungskáld 2022  frá 27 þátttakendum. Í öðru sæti keppninnar varð Selma Dís Hauksdóttir fyrir ljóðið Tilfinningar og meiri tilfinningar og í því þriðja varð Guðrún María Aðalsteinsdóttir fyrir smásöguna Mávur verður vitni að maraþoni! Fyrir fyrsta sætið voru veitt 50 þúsund króna peningaverðlaun, 30 þúsund fyrir annað sætið og 20 þúsund fyrir þriðja sætið.

Mars Baldurs er Vestur-Húnvetningur, frá bænum Saurbæ á Vatnsnesi. Hán er á þriðja ári í VMA og stefnir á að ljúka stúdentsprófi næsta vor. Mars segist hafa skrifað reglulega frá fimmtán ára aldri. „Ég reyni að skrifa eitthvað á hverjum degi, aðallega smásögur því mér finnst það form skemmtilegast. Fyrst er fremst eru skriftirnar áhugamálið mitt, þetta byrjaði þannig að ég hafði gaman að því að búa til sögur upp í kollinum á mér en síðan fór ég að skrifa þær niður. Þessi viðurkenning þýðir mikið fyrir mig og er mikil hvatning, nú veit ég að mér er óhætt að halda áfram,“ segir Mars.

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem gengur út á að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Verkefnið hófst árið 2013 og er það eina sinnar tegundar á landinu. Liður í því er umrædd ritlistakeppni. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Hann þarf þó að vera á íslensku og áskilið að sé frumsamið hugverk. Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, VMA, MA, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.

Í dómnefnd Ungskálda 2022 voru Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri, Sesselía Ólafsdóttir, leikkona og skáld, og Svavar Knútur Kristinsson, tónlistarmaður og textahöfundur.

Við verðlaunaafhendinguna í Amtsbókasafninu í gær voru Júlíana Valborg Þórhallsdóttir og Dagur Nói Sigurðsson með tónlistaratriði.

Ungskáld 2022 hófst með ritlistasmiðju í VMA 15. október sl. þar sem rithöfundarnir Gunnar Helgason og Kamilla Einarsdóttir fræddu 19 þátttakendur um ýmislegt varðandi ritlistina. Í byrjun nóvember fór í loftið hlaðvarpsþáttur Önnu Kristjönu Helgadóttur, Ungskálds Akureyrar árið 2018 og fyrrverandi nemanda í VMA, þar sem hún fjallar um skáldskapinn og kynni sín af Ungskáldaverkefninu. Þátt Önnu Kristjönu má nálgast hér.

Ritlistakvöld var síðan haldið á kaffihúsinu LYST í Lystigarðinum þriðjudagskvöldið 6. desember sl. þar sem yfir þrjátíu manns komu saman til að spjalla um ritlist, lesa upp eigin verk og hlusta á aðra lesa. Kormákur Rögnvaldsson, nemandi í VMA, var kynnir og Þröstur Ingvarsson, nemandi í VMA, var með tónlistaratriði.