Fara í efni

VMA vill bjóða upp á 2. bekk matreiðslunáms á vorönn 2018 - opið fyrir umsóknir

Verklegt próf matreiðslunema í VMA í desember 2016
Verklegt próf matreiðslunema í VMA í desember 2016

Á næstu önn – vorönn 2018 – stefnir VMA að því að bjóða upp á 2. bekk í matreiðslu, ef nægilega margir nemendur skrá sig í námið. Opið er fyrir umsóknir núna í nóvember á vefsvæðinu menntagátt.is og þarf umsókn að fylgja skannað afrit af staðfestum námssamningi frá Iðunni fræðslusetri.

Fyrir ári síðan, á haustönn 2016, var í fyrsta skipti kenndur 2. bekkur í matreiðslu á matvælabraut VMA. Þetta voru mikil og merk tímamót fyrir fullmenntun matreiðslumanna á Norðurlandi því fram að því gátu nemendur aðeins lokið grunnnámi sínu í VMA og þurftu að fara suður yfir heiðar og taka 2. og 3. bekk námsins þar. Nú er sem sagt komið að því í annað skipti að bjóða upp á þetta nám og er þess vænst að í framhaldinu verði mögulegt að bjóða einnig upp á 3. bekk námsins, sem er undanfari þess að nemendur geti gengist undir sveinspróf í matreiðsluiðn.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð hversu mikilvægt það er að geta fullmenntað matreiðslumenn í VMA. Eins og annars staðar á landinu er veitingageirinn í sókn á Norðurlandi, sem helst í hendur við vaxandi straum erlendra ferðamanna inn á svæðið. Aukin spurn er því eftir fagmenntuðu fólki í matreiðslu og einnig framreiðslu.

Til þess að unnt verði að fara af stað með 2. bekk í matreiðslu í janúar nk. þarf 10-12 nemendur og væntir Marína Sigurgeirsdóttir, kennari og brautarstjóri matvælabrautar VMA, þess að fyrirtæki í hótel- og veitingageiranum á Norðurlandi geri starfsmönnum sínum kleift sem vilji nýta sér þetta tækifæri til að afla sér frekari þekkingar í átt að fullgildum fagréttindum. Marína er vongóð um að unnt verði að bjóða upp á þetta nám á vorönn og segir að þar fari saman hagsmunir atvinnugreinarinnar á svæðinu og skólans. En til þess að af þessu námi geti orðið þurfa nemendur að grípa gæsina og sækja um námið í þessum mánuði.

Eins og að framan greinir var í fyrsta skipti boðið upp á slíkt nám í VMA á haustönn 2016. Hér má sjá myndir sem voru teknar þegar nemendur gengust undir verklegt próf í matreiðslu 8. desember 2016.