Fara í efni

Bývefjurnar í úrslit í keppni ungra frumkvöðla

Bývefjur Býflugnafjölskyldunnar keppa til úrslita.
Bývefjur Býflugnafjölskyldunnar keppa til úrslita.

Nú liggur fyrir að hugmynd nemenda VMA í frumkvöðlafræði hjá Katrínu Harðardóttur hefur verið valin til að fara í úrslit í landskeppni ungra frumkvöðla, sem mun fara fram nk. mánudag.

Eins og sagt hefur verið frá hér á heimasíðunni gengur hugmynd nemendanna út á framleiðslu og markaðssetningu á svokölluðum bývefjum undir nafninu Býflugnafjölskyldan. Bývefjurnar má nýta á margvíslegan hátt og er gert ráð fyrir að þær komi í stað plastfilma, t.d. til þess að bregða utan um ost í kælinum o.s.frv. Hugmyndin hefur m.a. að markmiði að draga úr notkun plasts og mun ekki af veita.

Fyrirtækið Býflugnafjölskyldan er eitt tuttugu fyrirtækja sem voru valin í úrslit af 120 fyrirtækjum sem tóku þátt í fyrirtækjamessunni í Smáralind á dögunum. Úrslitin verða í höfuðstöðvum Arion banka í Reykjavík nk. mánudag og þar mæta að sjálfsögðu fulltrúar Býfugnafjölskyldunnar, enda þurfa nemendur að kynna fyrirtækið og svara fyrirspurnum dómara. Aðalverðlaun keppninnar felast í því að taka þátt í Evrópukeppni frumkvöðla í sumar en einnig eru veitt ýmis önnur verðlaun, t.d. besta ársskýrslan, besta sjálfbærnihugmyndin, besta markaðssetning og söluhugmynd og besta nýsköpunin.