Fara í efni

Bývefjur á fyrirtækjamessu

VMA-nemendur í frumkvöðlafræði í Smáralind.
VMA-nemendur í frumkvöðlafræði í Smáralind.

Á morgun kemur í ljós hvaða fyrirtæki fara í úrslit í landskeppni ungra frumkvöðla en ein af hugmyndunum sem eru í pottinum kemur frá nemendum í frumkvöðlafræði í VMA. Hugmyndin gengur út á framleiðslu og sölu á svokölluðum bývefjum. Helgina 7.-8. apríl var efnt til árlegrar fyrirtækjamessu ungra frumkvöðla í Smáralind í Kópavogi þar sem kynntar voru allar þær fjölmörgu hugmyndir sem nemendur í frumkvöðlafræði í framhaldsskólum víða um land hafa sett fram, þar á meðal hinar norðlensku bývefjur sem eru markaðssettar undir nafninu Býflugnafjölskyldan. Hugmyndirnar voru metnar af dómurum og nokkrar þeirra fara í úrslit. Vinningshugmyndin fer síðan alla leið í Evrópukeppni ungra frumkvöðla. 

Á fyrirtækjamessunni í Smáralind voru sjö nemendur úr VMA og með þeim Katrín Harðardóttir kennari þeirra. Settur var upp kynningarbás fyrir bývefjurnar sem nemendurnir höfðu pakkað í neytendapakkningar. Viðbrögðin voru mjög góð og stór hluti lagersins seldist á vörumessunni í Smáralind.

Eins og áður hefur verið sagt frá hér á heimasíðunni gengur hugmynd VMA-nemenda út á framleiðslu á bývaxklútum eða bývefjum sem nýta megi á margvíslegan hátt og komi þær í stað plastfilma, t.d. til þess að bregða utan um ost í kælinum o.s.frv. Hugmyndin hefur því að markmiði að leggja lóð á þá vogarskál að draga sem mest úr plastnotkun en í þeim efnum er óhætt að segja að sé almenn vakning í samfélaginu.

Um sex hundruð ungir frumkvöðlar kynntu um 120 fyrirtæki í Smáralindinni og því má ljóst vera að ekki skortir hugmyndirnar hjá unga fólkinu. VMA-krakkarnir höfðu mikla ánægju af því að taka þátt í verkefninu og vera hluti af þessari stóru og umfangsmiklu fyrirtækjamessu. Og lærdómurinn af því að stofna fyrirtæki, hanna og markaðssetja vöru og fylgja henni alla leið er ótvíræður og dýrmætt veganesti.