Fara í efni

Frumkvöðlafræðinemar vinna með bývaxklúta

Nemendur í frumkvöðlafræði í heimsókn hjá Höddu.
Nemendur í frumkvöðlafræði í heimsókn hjá Höddu.

Fastur liður í námi nemenda á viðskipta- og hagfræðibraut er áfangi í frumkvöðlafræði. Núna á vorönn kenna áfangann þær Katrín Harðardóttir og Íris Ragnarsdóttir. Námið er fjölbreytt og gefur nemendum ákveðna sýn á fyrirtækjarekstur - frá viðskiptahugmynd í vörusölu. Í tengslum við þá vöru sem nemendur vinna með í áfanganum fóru þeir og kennarar þeirra á dögunum í heimsókn til Höddu - Guðrúnar H. Bjarnadóttur listakonu í Eyjafjarðarsveit. Þessar myndir tók Hilmar Friðjónsson við það tækifæri.

Katrín upplýsir að nemendur í frumkvöðlaáfanganum séu nú að vinna með svokallaða bývaxklúta, hanna þá og framleiða með það að markmiði að markaðssetja þá og selja. Um þessa framleiðslu þurfa nemendurnir að stofna fyrirtæki, markaðssetja, fjármagna framleiðsluna o.s.frv., rétt eins og framleiðslufyrirtæki almennt gera. Hugmyndin er m.a. sú að klútarnir komi í stað plastfilma og þannig segir Katrín að þetta sé framlag nemenda og kennara til þess að draga úr plastmengun. Horft sé m.a. til þess að nota bývaxklútana utan um matarafganga, í stað plasts.

Liður í náminu var heimsókn til Höddu listakonu en hún hefur haft að leiðarljósi í sinni listsköpun að endurnýta hluti, bæði að nota þá í listaverk og einnig nytjahluti. Þótti nemendunum mikið til koma að sjá hvernig Hadda endurnýtir alls kyns hluti.

Í næsta mánuði, nánar tiltekið 7. apríl, koma nemendur í frumkvöðlaáfanganum í VMA til með að taka þátt í landskeppni ungra frumkvöðla í Smáralind.