Fara í efni

Vinkonurnar voru með það á hreinu að ég yrði hárgreiðslukona

Ásgerður Jana Ágústsdóttir.
Ásgerður Jana Ágústsdóttir.

„Þegar ég var yngri var ég alltaf eitthvað að fikta í hári en ég hafði þó ekki hugsað mér að læra hárgreiðslu. Vinkonur mínar voru hins vegar á annarri skoðun og voru alveg með það á hreinu að ég yrði hárgreiðslukona,“ segir Ásgerður Jana Ágústsdóttir, sem stundar nám á þriðju önn í hárgreiðslu.

Ásgerður Jana lauk stúdentsprófi frá MA vorið 2016. Leið hennar lá síðan til Bandaríkjanna þar sem hún stundaði í eitt ár nám í heilsufræðum. Næst lá leiðin í kennaradeildina í Háskólanum á Akureyri og hafði Ásgerður Jana í huga að verða íþróttakennari. Af ýmsum ástæðum breyttust þau plön og hún ákvað að fara í hársnyrtiiðn í VMA – hóf það nám haustið 2019 – og er nú sem fyrr segir á þriðju af sex önnum námsins. „Ég hef ekki annað í hyggju en að ljúka þessu námi. Hvað svo sem ég geri í framtíðinni finnst mér mikilvægt að hafa þetta nám í handraðanum, það mun nýtast vel,“ segir Ásgerður Jana.

Nemendur á þriðju önn í hársnyrtiiðn fá í viku hverri að fara út á örkina og fá innsýn í starfsemi hársnyrtistofa. Ásgerður Jana segir þessar námskynningar mikilvægar og lærdómsríkar og þær efli áhugann á faginu.

Ásgerður Jana er fædd 1996. Hún hóf ung að árum að æfa frjálsíþróttir og náði afburða góðum árangri. Um það vitnar afrekaskrá Frjálsíþróttasambandsins. Bakmeiðsli settu strik í reikninginn þegar hún var í Bandaríkjunum og í hartnær tvö ár þurfti hún að taka sér alfarið frí frá frjálsíþróttum. Ásgerður Jana segist hafa markvisst unnið í því að ná sér af meiðslunum og nú sjái hún fram á betri daga í þeim efnum. Löngunin til þess að fara aftur á markvissar æfingar á frjálsíþróttavellinum og keppni sé til staðar. Fyrst og fremst hafi hún æft og keppt í sjöþraut – þar sem keppt er í kúluvarpi, hástökki, spjótkasti, langstökki, 100 m grindahlaupi, 200 m hlaupi og 800 m hlaupi. „Undanfarin ár hef ég fyrst og fremst einbeitt mér að alhliða líkamsþjálfun, haldið mér við í ræktinni, synt og ýmislegt annað, og jafnframt hef ég verið í einkaþjálfaranámi,“ segir Ásgerður Jana og á ekki langt að sækja líkamsræktar- og íþróttaáhugann, foreldrar hennar eru Guðrún Gísladóttir – Gugga í Átaki/World Class og Ágúst Guðmundsson.