Fara í efni

Vil hrósa nemendum

Haukur Eiríksson, kennari í rafiðngreinum.
Haukur Eiríksson, kennari í rafiðngreinum.

„Almennt vil ég hrósa nemendum fyrir hversu virkir og jákvæðir þeir eru í náminu við þessar breyttu aðstæður og gera sitt allra besta. Ef eitthvað er hefur þetta ástand þjappað hópnum enn betur saman,“ segir Haukur Eiríksson, kennari í rafiðngreinum en á þessari önn kennir hann rafeindatengd fög og rafmagnsfræði í grunndeild rafiðna.

„Við notum Moodle kerfið mikið í kennslunni og einnig vinnum við töluvert í Google Hangouts Meet sem virkar þannig að nemendur geta tengst skólastofum meðan kennslustund stendur yfir og kennarinn er til staðar. Þetta getur líka virkað þannig að nemendur geta tengst skólastofunni og átt samskipti sín á milli. Þessu til viðbótar nota ég töluvert kerfið Nearpod þar sem ég dreifi verkefnum og miðla fyrirlestrum og myndböndum. Nemendur skrá sig þar inn og síðan er kennslustundin gagnvirk. Þetta kerfi hef ég notað í kennslunni með góðum árangri og nemendur þekkja það því ágætlega,“ segir Haukur.

Haukur segir að vissulega sé verklegi hlutinn erfiðari viðureignar í fjarkennslu en þó sé reynt að nýta allar þá lausnir sem tiltækar séu í þeim efnum. „Nefna má að nemendur hafa fengið með sér heim Arduino - litlar smátölvur til þess að forrita. Í rafeindatækninni fá nemendur box í upphafi annar með litlum íhlutum og rafeindabúnaði og þessa hluti eru þeir að vinna með heima. Þó svo að verklegi hlutinn sé eðli málsins samkvæmt minni en hann ætti að vera á þessum tíma er hann þó ekki með öllu horfinn. Við reynum að gera eins vel úr því sem við höfum í góðu samstarfi við nemendur,“ segir Haukur og bætir við að hann og kollegar hans í rafiðngreinum hafi verið vel meðvitaðir um að mögulega gæti komið til lokunar skólans og því hafi síðustu vikur fyrir lokunina verið meiri áhersla á ýmsar verklegar æfingar.

„Misafnt er hvernig við kennarar í rafiðngreinum högum kennslunni. Ég sendi út upplýsingar og verkefni sem tengjast tímunum sem ég með í stundaskrá og þar fyrir utan er geta nemendur alltaf leitað til mín, hvort sem er með því að senda mér póst eða hringja í mig. Ég veit líka dæmi þess að kennarar í rafiðngreinum fylgja stundaskrá og eru með fjarfundi á þeim tíma sem tímar þeirra eru í stundaskránni. Almennt er námið verkefnamiðað í rafdeildinni og við vinnum mikið með að gera nemendur sjálfstæða. Það hjálpar að þeir þurfa að hafa yfir fartölvum að ráða í námi sínu og því til viðbótar hafa grunndeildarnemendur fengið á undanförnum árum spjaldtölvur að gjöf frá Rafiðnaðarsambandinu og Samtökum rafverktaka til þess að nota í námi sínu. Á fyrstu önninni þjálfum við nemendur í að skila okkur verkefnum rafrænt, búa til skjöl og bæta inn í þau myndum, búa til vefi og svo framvegis. Það hjálpar okkur núna,“ segir Haukur Eiríksson.