Fara í efni

Víkingur Þorri á Ólympíuleikana í stærðfræði

Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson.
Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson.

Víkingur Þorri Sigurðsson, nemandi á náttúruvísindabraut VMA, verður einn sex framhaldsskólanema sem keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í stærðfræði. Þetta varð ljóst þegar niðurstöður úr Norrænu stærðfræðikeppninni 30. mars sl. lágu fyrir.

Það hefur verið langur og strangur vegur fyrir Víking Þorra að tryggja sér sætið á Ólympíuleikunum. Hann tók fyrst þátt í forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanna í október á síðasta ári og tryggði sér þar inn í úrslit sem voru í Reykjavík 4. mars sl. Í úrslitum hélt Víkingur Þorri áfram að gera það gott og tryggði sér þátttökurétt í Norrænu stærðfræðikeppninni, sem var veflæg og fór fram rétt fyrir páskaleyfi, nánar tiltekið 30. mars sl. Og ekki þarf að orðlengja það að áfram stóð Víkingur Þorri sig með afbrigðum vel og tryggði sér sæti í sex manna keppnisliði Íslands sem tekur þátt í Ólympíuleikunum í stærðfræði í Chiba í Japan 2. til 13. júlí í sumar.

Keppnislið Íslands á leikunum verður þannig skipað:

Víkingur Þorri Sigurðsson – Verkmenntaskólinn á Akureyri
Benedikt Vilji Magnússon – Menntaskólinn í Reykjavík
Hrafnkell Hvanndal Halldórsson – Menntaskólinn í Reykjavík
Ísak Norðfjörð – Menntaskólinn í Reykjavík
Kirill Zolotuskiy – Menntaskólinn í Reykjavík
Matthías Andri Hrafnkelsson – Menntaskólinn í Reykjavík

Ljóst er að Víkings Þorra og fimm liðsfélaga hans úr MR bíður mikið ævintýri í Japan í júlí og ef að líkum lætur verður tilvera þeirra töluvert lituð af stærðfræðiþrautum hverskonar næstu vikur og mánuði.