Fara í efni

Systkini í úrslit stærðfræðikeppni framhaldsskólanema

Systkinin Theodóra Tinna og Víkingur Þorri
Systkinin Theodóra Tinna og Víkingur Þorri

Systkinin Theodóra Tinna Reykjalín Kristínardóttir (f. 2003) og Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson (f. 2005), sem bæði stunda nám á náttúruvísindabraut VMA, hafa tryggt sér þátttöku í úrslitum árlegrar stærðfræðikeppni framhaldsskólanema, sem Íslenska stærðfræðafélagið stendur fyrir. Þetta var tilkynnt í gær. Fimm af nemendum í úrslitum eru frá skólum utan höfuðborgarsvæðisins, tveir úr VMA og þrír úr MA.

Theodóra og Víkingur tóku þátt í forkeppni stærðfræðikeppninnar 4. október sl. og tryggðu sér sæti í úrslitum, sem fara fram í byrjun mars á næsta ári. Keppt er í tveimur flokkum eða stigum og kepptu Theodóra og Víkingur á neðra stigi. Víkingur Þorri varð í efsta sæti, eins og hér má sjá, og Theodóra í 6.-.7. sæti.

Forkeppni þessarar árlegu stærðfræðikeppni fór fram í framhaldsskólum um allt land og tóku fjórir nemendur VMA þátt í henni að þessu sinni.

Theodóra Tinna og Víkingur Þorri segja að það hafi komið þeim skemmtilega á óvart að komast í úrslitin og þau séu strax farin að velta vöngum yfir hvernig þau hagi undirbúningnum fyrir úrslitakeppnina. Nú þegar hafi þau kíkt á gömul próf sem hafa verið lögð fyrir í úrslitum og sjái að þau séu meira krefjandi en í forkeppninni. Þau eru sammála um að þessi niðurstaða sé mjög hvetjandi fyrir þau í náminu.

Þau systkinin hófu nám í VMA á þessari önn og líkar vel. Þau fluttu með fjölskyldunni til Akureyrar á þessu ári frá Spáni, þar sem hún hefur búið frá 2019. Áður bjó fjölskyldan á Höfn í Hornafirði en bæði bjuggu þau fyrstu æviárin á Akureyri og því var niðurstaða fjölskyldunnar að flytja aftur til Akureyrar, hér eru ræturnar, eins og systkinin orða það.

VMA óskar Theodóru Tinnu og Víkingi Þorra til hamingju með frábæran árangur.