Fara í efni

Vélstjórnin er áhugaverð

Kristinn Þeyr (til vinstri) og Þorvaldur Ágúst.
Kristinn Þeyr (til vinstri) og Þorvaldur Ágúst.

Akureyringarnir Kristinn Þeyr Halldórsson og Þorvaldur Ágúst Jónsson voru að loknum grunnskóla  ekki klárir á því hvað þeir ætluðu að verða þegar þeir yrðu stórir. Það eina sem þeir voru ákveðnir í að gera var að fara í verknám. Úr varð að þeir innrituðust í grunndeild málmiðnaðar í VMA og að henni lokinni ákváðu þeir að fara áfram í vélstjórnarnám. Eru núna á annarri önn og prýðilega sáttir við námið það sem af er.

„Við völdum vélstjórnina af því að okkur þótti hún áhugaverð og hún býður upp á marga möguleika á vinnumarkaði í framtíðinni. Okkur líst vel á þetta. Hér er margt áhugavert að læra. Til dæmis erum við núna í stýritækni, viðhaldi véla, umhverfisfræði, vélfræði, rafmagnsfræði og síðan bóklegum greinum eins og stærðfræði og íslensku,“ segir Kristinn Þeyr.

Staðreyndin er sú að fáar stúlkur fara í bæði málmiðnaðarnám og vélstjórn og segjast þeir Kristinn og Þorvaldur ekki hafa skýringar á því. Þó kunni að vera að þessar námsbrautir hafi þá ímynd að vinnan sé frekar óþrifaleg og það hugnist stúlkum almennt ekki.  „Þetta getur auðvitað stundum verið óþrifaleg vinna en ef við til dæmis horfum á vélstjóra í skipum, þá held ég að vinnan í dag sé mun þrifalegri en hún var í gamla daga,“ segir Þorvaldur.

Í frítímum sínum utan skólans segist Þorvaldur Ágúst æfa og spila körfubolta með Þór og auk þess vinni hann eilítið í Bónus, svona rétt til þess að ná sér í smá vasapening. Kristinn Þeyr hefur hins vegar brennandi áhuga á fluguveiði og nýtir veturinn m.a. til þess að hnýta flugur og undirbúa næsta veiðisumar.

Þeir eru sammála um að á þessu stigi séu þeir ekki farnir að velta því fyrir sér hvað þeir geri þegar náminu lýkur, enda eiga þeir langt í land. Vélstjórnarnámið tekur fjögur ár að lokinni grunndeild málmiðnaðar og því eiga þeir eftir sex annir í skólanum eftir að þessari önn lýkur til þess að ljúka vélstjórnarnáminu. Þeir félagar eru bara rétt að byrja – en byrjunin lofar góðu.