Fara í efni

Lokaverkefni Írisar í vélstjórn fært VMA að gjöf

Francis túrbínan sem VMA hefur verið færð að gjöf.
Francis túrbínan sem VMA hefur verið færð að gjöf.

Íris Arngrímsdóttir brautskráist úr vélstjórn í VMA síðar í þessum mánuði. Í lokaverkefni sínu í náminu gerði hún upp og prófaði um þrjátíu ára gamla Francis vatnsaflstúrbínu sem föðurbróðir hennar, Eiður Jónsson í Árteigi í Út-Kinn, smíðaði. Íris starfar hjá Landsvirkjun – í Laxárvirkjun.

Íris kynnti verkefni sitt og túrbínuna á dögunum þegar kynnt voru lokaverkefni allra nemenda sem eru að útskrifast úr vélstjórn í lok maí.

Vélaverkstæðið í Árteigi hefur nú fært VMA túrbínuna að gjöf og segir Vilhjálmur G. Kristjánsson, kennari í vélstjórn, að hún muni nýtast afar vel í kennslu í vatnsvélarfræði.

Eiður Jónsson í Árteigi segir að Francis-túrbínuna, sem er með rétt um 800 watta afl, hafi hann smíðað á sínum tíma fyrir sumarbústað sem Jón Gunnarsson á Dalvík byggði. Síðar var sett aflmeiri túrbína í bústaðinn og þá tók Eiður Francis-túrbínuna aftur og hefur hún staðið óhreyfð í langan tíma, þar til nú.

Vélaverkstæðið í Árteigi hefur smíðað túrbínur fyrir bæði innanlands- og utanlandsmarkað. Átta túrbínur hafa farið til Grænlands og ein til Bandaríkjanna, Færeyja og Rússlands. Eiður segir að næg verkefni séu og mögulega megi ætla að hér innanlands verði aukin spurn eftir slíkum túrbínum, ef marka má umræðu um aukinn áhuga á að byggja smávirkjanir á Íslandi. Aflmesta túrbínan sem Vélaverkstæðið í Árteigi hefur smíðað er 700 kW.

VMA vill koma á framfæri innilegu þakklæti til annars vegar Írisar og hins vegar Arngríms föður hennar og Eiðs föðurbróður hennar, sem eiga og reka Vélaverkstæðið í Árteigi, fyrir þessa höfðinglegu gjöf.