Fara í efni

Vandvirkni og þolinmæði eru lykilatriði

F.v. Þóra Kolbrún, Þórólfur, Ásbjörn og Anna Lind.
F.v. Þóra Kolbrún, Þórólfur, Ásbjörn og Anna Lind.

Þau eru öll fjögur í grunnnámi málm- og véltæknigreina. Búa á Akureyri eða í nágrenni. Stefna öll á nám í vélstjórn. Þrjú þeirra innrituðust í nám í VMA sl. haust að loknum 9. bekk grunnskóla – fóru sem sagt ekki í 10. bekk grunnskóla, rétt eins og Aldís Lilja Sigurðardóttir, sem sagt var frá hér á heimasíðunni í gær.

Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir er fimmtán ára gömul, býr í Eyjafjarðarsveit og var í Hrafnagilsskóla. Hún segist hafa ákveðið síðastliðið haust að fara í VMA í grunnnám málm- og véltæknigreina og hafi þá framtíðarsýn að fara áfram í vélstjórnarnám í VMA og síðan geti hún séð fyrir sér að halda áfram og fara í verkfræði. „Mér finnst þetta spennandi nám og öðruvísi. Ég tók endanlega ákvörðun eftir að hafa komið hingað í skólann á grunnskólakynninguna sl. vetur. Ég hafði út af fyrir sig engan ákveðinn grunn eða reynslu af málmiðnaði en mér finnst það ekkert hafa háð mér. Mikilvægast er að taka vel eftir því sem okkur er kennt og fylgja því,“ segir Þóra Kolbrún.

Anna Lind Logadóttir er sextán ára gömul og býr í Skógarhlíð í Hörgársveit, rétt norðan Akureyrar. Grunnskólinn hennar var Þelamerkurskóli. Hún segist hafa verið nokkuð ákveðin í að fara í verklegt nám og grunnnám málm- og véltæknigreina hafi e.t.v. orðið fyrir valinu vegna þess að fósturfaðir hennar sé vélstjóri. Hún horfi til þess að fara áfram í vélstjórnarnám.

Tvíburabræðurnir Þórólfur og Ásbjörn Guðlaugssynir stefna sömuleiðis á vélstjórnarnám og vilja feta í fótspor föður þeirra og bróður sem báðir hafa vélstjórnarréttindi. Þeir eru 15 ára gamlir og innrituðust til náms í VMA að loknum 9. bekk Síðuskóla. Þeir eiga ættir að rekja til Grímseyjar og segjast vera þar mikið á sumrin og stunda sjómennsku. „Það kom eiginlega aldrei neitt annað til greina en að fara í vélstjórn. Okkur líkar vel hér, þetta er gott gagnlegt nám,“ segja bræðurnir.

Almennt segja fjórmenningarnir kunna vel við sig í VMA. Þau segja að lykilhugtök í verklega hluta námsins sé þolinmæði og vandvirkni. Mikilvægt sé að hafa það að leiðarljósi.

Þóra Kolbrún og Anna Lind segja að mögulega séu fordómar eða einhver hræðsla ráðandi í því að tiltölulega fáar stúlkur velji að fara í málmiðnaðargreinar. Þær segja að ástæðulaust sé að óttast að velja þetta nám þó svo að ekki sé til staðar reynsla eða ákveðinn grunnur. Þetta sé eins og hvert annað nám sem nemendur meðtaki af áhuga og ástundun. Þær eru sammála um að það hafi verið hárrétt ákvörðun að velja þessa námsbraut og ekki sé verra að hún hafi leitt þær tvær saman – nú séu þær bestu vinkonur.