Fara í efni

Úr 9. bekk grunnskóla í hársnyrtiiðn

Aldís Lilja Sigurðardóttir.
Aldís Lilja Sigurðardóttir.

Aldís Lilja Sigurðardóttir er fimmtán ára gömul, búsett í Hrafnagilshverfinu í Eyjafjarðarsveit, og stundar nám á fyrstu önn í hársnyrtiiðn. Hún tók þann kost að sækja um nám í VMA strax að loknum 9. bekk Hrafnagilsskóla – með öðrum orðum að sleppa 10. bekk enda hafði hún fullnægjandi einkunnir úr samræmdum prófum til þess að innritast í framhaldsskóla að loknum 9. bekk.

„Þegar ég vissi af þeim möguleika að til þess að komast í framhaldsskóla að loknum 9. bekk grunnskóla þyrfti ég A í að minnsta kosti einu fagi á samræmdum prófum vildi ég keppa að því og það tókst. Eftir að ég hafði kynnt mér hársnyrtiiðn hér í VMA á grunnskólakynningunni sl. vetur var ég ákveðin í að þetta vildi ég læra. Ég vildi fara í verknám því ég er alltof ofvirk til þess að sitja löngum stundum og lesa. Ég vildi fara í nám þar sem ég væri með eitthvað á milli handanna. Ég sé ekki eftir því að hafa valið þessa námsleið, þetta er mjög skemmtilegt og ég tel að ég sé komin á rétta hillu. Sannast sagna hafði ég ekki hugleitt þetta nám en stefndi á íþróttafræði. En það breyttist,“ segir Aldís Lilja.

Aldís Lilja er dæmi um nemanda sem hefur nýtt sér þann möguleika að útskrifast úr grunnskóla strax að loknum 9. bekk grunnskóla til að sækja um nám í framhaldsskóla. Þetta gerði hún með vísan til eftirfarandi breytinga á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviða með aðalnámskrá grunnskóla sem Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, staðfesti 28. október 2016. Þessi breyting var auglýst í Stjórnartíðindum 31. október 2016 - auglýsing nr. 894. Í auglýsingunni segir orðrétt:

9.10 Brautskráning úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið.

Ef niðurstöður samræmdra könnunarprófa sýna að nemandi í 9. bekk hefur sýnt framúrskarandi (A) eða góða hæfni (B) samkvæmt hæfnikröfum 10. bekkjar og náð framúrskarandi árangri í öðrum greinum geta foreldrar óskað eftir því við skólastjóra grunnskóla að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið. Skólastjóri skal ráðfæra sig við umsjónarkennara nemandans og sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins áður en hann tekur ákvörðun í málinu. Skólastjóri metur hvenær nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla.

Nemanda ber að ljúka öllu skyldunámi samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla með framúrskarandi árangri áður en hann útskrifast þaðan, samanber eftirfarandi viðmið:
• Nemandi uppfylli viðmið með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár með framúrskarandi árangri. • Nemandi hafi fengið náms- og starfsráðgjöf.
• Skólastjóri telji útskrift ráðlega.
• Nemandi hefur félagsþroska til að takast á við félagslegt umhverfi framhaldsskóla. Nemendur sem ekki hafa lokið grunnskólanámi geta þó hafið nám í framhaldsskóla samhliða í samráði við foreldra, viðkomandi framhaldsskóla og viðkomandi sveitarfélag, þar sem ljóst sé hvernig námið er formlega metið.

Samkvæmt grunnskólalögum er gert ráð fyrir að nánar sé samið um framkvæmd og fyrirkomulag milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla. Ákveði skólastjóri að synja foreldrum um útskrift úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið geta foreldrar kært þá synjun grunnskóla til mennta- og menningarmálaráðuneytis sem úrskurðar í málinu.

Nám og listhlaup á skautum
Það er í mörg horn að líta fyrir Aldísi Lilju því auk námsins í VMA er hún á fullu í listhlaupi á skautum, hefur raunar æft þá íþrótt frá unga aldri. Og hún lætur sér ekki nægja að æfa íþróttina sjálf, hún er einnig að þjálfa yngri iðkendur.

Aldísi Lilju finnst ekki tiltökumál að vera yngsti nýneminn í hársnyrtiiðn. „Nei, alls ekki. Þáð flækist ekkert fyrir mér að vera yngst hér. En mér fannst aðeins erfitt fyrstu dagana að skipta um skóla, koma úr Hrafnagilsskóla og í þennan stóra skóla hér. En ég var fljót að venjast því og kann mjög vel við námið og skólann.“

Þegar Aldís Lilja var tekin tali var hún og samnemendur hennar á fyrsta ári í hársnyrtiiðn að þjálfa sig í að setja rúllur í hár, nokkuð sem Harpa Birgisdóttir kennari segir að sé einn af mikilvægum grunnþáttum í náminu á fyrstu önninni. Ofan á færni í þessum þætti námsins sé síðan byggt á síðari stigum. Hér er Aldís Lilja að spreyta sig á rúllunum og hér má sjá samnemendur hennar gera slíkt hið sama.