Fara í efni

Tryggvi Snær Íþróttamaður Þórs 2015

Tryggvi Snær með Gunnari Frímannssyni kennara.
Tryggvi Snær með Gunnari Frímannssyni kennara.

Tryggvi Snær Hlinason, körfuboltamaðurinn knái úr Bárðardal og rafvirkjanemi í VMA, var milli jóla og nýárs valinn íþróttamaður Íþróttafélagsins Þórs fyrir árið 2015. Þetta þýðir að Tryggvi Snær verður í kjöri til Íþróttamanns Akureyrar síðar í þessum mánuði, en að því stendur Íþróttabandalag Akureyrar.

Tryggvi Snær hefur vakið mikla athygli á körfuboltavellinum og náð ótrúlegum árangri þótt hann hafi ekki lengi æft körfubolta. Hann er einn af lykilmönnum 1. deildar liðs Þórs og einnig hefur hann stimplað sig rækilega inn í unglingalandslið Íslands og á án nokkurs vafa eftir að láta verulega að sér kveða í framtíðinni.

Hér á heimasíðunni birtist viðtal við Tryggva Snæ 6. nóvember sl.

Körfuknattsleiksdeild Þórs valdi Tryggva Snæ körfuknattleiksmann ársins og tilnefndi hann um leið til kjörs Íþróttamanns Þórs. Eftirfarandi er rökstuðngur körfuknattleiksdeildarinnar fyrir útnefningunni:

„Körfuboltamaður Þórs er Tryggvi Snær Hlinason. Tryggvi hefur náð alveg einstökum árangri á árinu 2015, sérstaklega fyrir þær sakir að hann hóf körfuknattleiksiðkun á árinu 2014. Til marks um undraverðan árangur Tryggva á skömmum tíma var hann á árinu 2015, einungis ári eftir að hann hóf að stunda sportið, afrekað að vera valinn í þrjú landsliðsúrtök; u18, u20 og A-landslið karla. Þessi ótrúlegi árangur hefur vakið gríðarlega athygli hér á landi og hafa fréttamiðlar eins og Morgunblaðið, Vísir.is og héraðsmiðlar keppst við að birta fréttir af kappanum. En áhugi á Tryggva sem körfuboltamanni hefur vakið athygli langt út fyrir landssteinana og hefur hann fengið nokkur tilboð erlendis frá. Á seinni hluta tímabilsins 2014-2015 var Tryggvi orðinn besti leikmaður mfl. karla. Hann skoraði 11 stig, tók 7,5 fráköst og varði yfir 5 skot í leik í síðustu átta leikjum tímabilsins (á árinu 2015). Fyrir utan að vera ótrúleg ógn í teignum við sóknarmenn andstæðingana. Í sumar spilaði Tryggvi með U-18 ára landsliðinu á bæði Norðurlandamótinu og Evrópumótinu. Hann var í lykilhlutverki í liðinu, byrjaði alla 14 landsleikina og var með mínútuhæstu leikmönnum liðsins.Tryggvi var án efa mikilvægasti varnarmaður liðsins en hann var t.d. í þriðja sæti yfir þá leikmenn sem vörðu flest skot í Evrópukeppninni. Í kjölfarið á hve Tryggvi spilaði vel með U-18 á Norðurlandamótinu í Maí var hann valinn í æfingahóp A-landsliðs karla fyrir smáþjóðaleikana. Nú í desember var Tryggvi valinn í æfingahóp U-20 liðsins fyrir komandi landsliðsverkefni næsta sumar fyrir bæði NM og EM. Hópurinn æfir yfir jólin. Tryggvi verður að teljast mjög líklegur til að vera valinn, enda efnilegasti miðherji Íslands. Tryggvi hefur verið miðdepillinn í hröðum uppgangi körfuknattleiksdeildar Þórs. Liðið er nú í toppbaráttunni í fyrstu deild karla og á mikla möguleika á að fara upp um deild. Liðið vakti sérstaklega athygli fjölmiðla þegar það lagði næstum því að velli Íslandsmeistara KR í bikarkeppninni á dögunum. Leikurinn fór 87-84 fyrir KR, þar sem Þórsarar voru síst sterkari aðlinn leiddir áfram af Tryggva Snæ sem var með 20 stig, tók 14 fráköst og 2 varin skot í leiknum. Tölfræði Tryggva í ár af þessum 8 leikjum sem búnir eru í deildinni er 14 stig, 9 fráköst og 3 varin skot. Auk þess er Tryggvi með slétta 20 framlagspunkta.Framlagsjafnan plúsar alla jákvæða tölfræði og mínusar alla neikvæða tölfræði. Með sínum 20 framlagspunktum er Tryggvi hæstur allra leikmanna Þórs í framlagi (hærra en erlendu leikmennirnir tveir í liðinu) og með þeim hæstu í allri deildinni. Helstu kostir Tryggva sem íþróttamanns er hvað hann er viljugur að læra og hlusta á þjálfarana sína, þess vegna tekur hann stöðugum framförum. Hann er mjög duglegur að æfa og er einstaklega ósérhlífinn leikmaður. Með sínum mikla baráttuvilja smitar hann út frá sér og hrífur bæði samherja og áhorfendur. Þess fyrir utan er hann mikil og góð fyrirmynd yngri iðkenda. Þess vegna er Tryggvi Snær körfuknattleiksmaður Þórs árið 2015.“