Fara í efni

Tveir og fjórtán og stefnir á A-landsliðið í körfu!

Róslín, Gunnar og Tryggvi Snær.
Róslín, Gunnar og Tryggvi Snær.

Hann er á þriðja ári á rafiðnaðarbraut í VMA, ósköp venjulegur átján ára sveitastrákur frá Svartárkoti í Bárðardal. Eitt greinir Tryggva Snæ Hlinason þó verulega frá jafnöldrum sínum og skólasystkinum; stærðin. Án þess að fullyrða það, þá er harla líklegt að Tryggvi Snær sé í dag hæsti Íslendingurinn undir tuttugu árum – tveir metrar og fjórtán sentímetrar, hvorki meira né minna. Þrátt fyrir skamman feril í körfuboltanum er Tryggvi Snær nú þegar farinn að láta verulega að sér kveða og sannarlega vakti pilturinn athygli í vikunni þegar hann skoraði tuttugu stig og tók fjórtán fráköst fyrir Þór Ak gegn Íslandsmeisturum KR í bikarnum. Það dugði þó ekki til og KR hafði sigur með þremur stigum. 

Þetta er þriðji vetur Tryggva Snæs í VMA. „Planið mitt er að ljúka við rafvirkjunina, taka  stúdentinn í framhaldinu hér í VMA og fara síðan í háskóla til Bandaríkjanna og spila körfubolta jafnframt,“ segir Tryggvi.

„Það eru að nálgast tvö ár síðan ég byrjaði að æfa körfubolta. Ég hafði aðeins spilað körfubolta á Stórutjörnum, þar sem ég var í grunnskóla, en þar voru hins vegar engar skipulegar körfuboltaæfingar. Það var ekki fyrr en ég kom hingað í VMA sem ég fór að gefa körfuboltanum meiri athygli. Fyrstu önnina hérna í skólanum var ég reyndar ekki í körfubolta vegna þess að ég fékk einkirningssótt og það hélt aftur af mér að byrja að æfa. En eftir jól, í ársbyrjun 2014, fór ég að mæta á æfingar hjá Þór. Síðan hef ég ekki hætt og það má segja að ég eigi erfitt með að leggja körfuboltann frá mér í dag! Vissulega var ég til að byrja með langt á eftir öðrum leikmönnum í tækni, enda höfðu þeir æft í nokkur ár en ég var nýr í þessu. En ég hef unnið markvisst í að bæta mig á öllum sviðum þessi tæpu tvö ár og hef ég notið góðrar aðstoðar og leiðbeininga margra við það. Benedikt Guðmundsson, núverandi þjálfari Þórs, hefur leiðbeint mér mikið og gefið mér mjög góð ráð undanfarna mánuði. Ég reyni að nýta allar æfingar vel og tek aukaæfingar sem eru í boði snemma á morgnana, fyrir skóla. Þá mætum við sem viljum þrisvar í viku klukkan korter í sjö og gerum tækniæfingar. Hæðin nýtist mér vel og í sókninni er ég undir körfunni. Þessi staða er stundum kölluð „stóri maðurinn“ eða miðherji. Það er gott að vera stór,“ segir Tryggvi og hlær. Hann viðurkennir að hann hafi verið mjög spenntur að mæta Íslandsmeisturum KR. „Ég hef aldrei verið eins spenntur fyrir leik og líklega hef ég aldrei reynt jafn mikið á mig í einum leik,“ segir Tryggvi en hann stóðst sannarlega álagið og áttu Íslandsmeistararnir oft í stökustu vandræðum með hann.

Tryggvi rifjar upp að þegar hann var yngri hafi hann verið í stærra lagi en á unglingsárunum hafi hann heldur betur tekið vaxtarkipp. „Á einu ári, líklega síðasta árið í grunnskóla, minnir mig að ég hafi hækkað um sautján sentímetra. Síðan hefur vöxturinn haldið áfram og í dag er ég tveir og fjórtán og þegar ég er kominn í körfuboltaskóna mælist ég tveir og sextán. Ég fór til læknis þegar ég var um tveir metrar og hann kvað upp úr með að þetta væri ekkert óeðlilegt og ég myndi kannski hækka um tvo sentimetra eða svo. Það reyndist hins vegar ekki vera. En ég held að nú sé ég hættur að stækka!“
Foreldrar Tryggva Snæs eru raunar frekar hávaxin. Faðir hans, Hlini Gíslason, er 190 cm hár og móðir hans, Guðrún Tryggvadóttir, er 178 cm.
Ætla mætti að vanlíðan gæti fylgt slíkri afbrigðilegri hæð en Tryggvi segir svo ekki vera. „Nei, það get ég ekki sagt. Það er kannski frekast þegar ég rek hausinn upp í. En maður er orðinn vanur því. Og maður er líka fyrir löngu orðinn vanur því að fólk horfi á mann á götu og raunar kemur það ennþá fyrir hér í skólanum að samnemendur mínir snúa sér við þegar þeir mæta mér á göngunum. Fyrst og fremst ætla ég mér að nýta þessa hæð mína á jákvæðan hátt, það er ekkert annað að gera.
Þarsíðasta sumar vann ég á Rafeyri og var þar að auki að æfa körfubolta en sl. sumar var ég meira og minna allt sumarið í körfubolta í Reykjavík þar sem ég spilaði með U-18 landsliðinu. Það er ekkert launungarmál að ég stefni  síðan á að vinna mér sæti í A-landsliðinu. Það væri gaman að ná því á næsta ári. Ég hef trú á því að ég geti náð því takmarki, það væri magnað. Eins og er stefni ég á atvinnumennsku, að komast í háskólaboltann í Bandaríkjunum.“

Tryggvi Snær segist ekki neita því að hlutirnir hafi þróast í töluvert aðra átt en hann átti von á þegar hann innritaði sig á rafiðnaðarbrautina í VMA. „Á sínum tíma hafði ég jafnvel í huga að ljúka námi hér í VMA í bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun. Eftir það hafði ég lítið planað. En eftir að ég byrjaði á fullu að æfa körfubolta breyttust hlutirnir og sérstaklega eftir að ég fór að spila með U-18 landsliðinu og var valinn í úrtakshóp fyrir A-landsliðið. Þá fór maður alvarlega að hugsa um að leggja meiri áherslu á körfuboltann og komast síðar í háskóla í Bandaríkjunum. En til þess að það geti orðið þarf ég einnig að ljúka stúdentsprófi og á það stefni ég. En eins og er einbeiti ég mér að náminu í rafvirkjuninni hér í VMA og að spila vel með Þór og það kemur ekkert annað til greina en að fara með liðinu upp í efstu deild í vetur. Það er okkar takmark og ég tel okkur hafa alla möguleika á því. Það myndi hjálpa mér mikið til að eflast sem körfuboltamaður, því sterkari andstæðingar, því betri leikmaður verður maður,“ segir Tryggvi Snær Hlinason.

Meðfylgjandi mynd var tekin af Tryggva Snæ sl. þriðjudag þegar stóð yfir grunnskólakynning í VMA. Með honum á myndinni eru Gunnar Frímannsson kennari og Róslín Tómasdóttir, nemandi í 10. bekk Giljaskóla á Akureyri, sem var að kynna sér námið í VMA.