Fjarkennslan - framvinda

Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri       Markmiđ fjarkennslu Verkmenntaskólans á Akureyri er ađ gefa ţeim kost á námi, sem ekki geta stundađ ţađ

Fjarkennslan - framvinda og námsvinna

Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri

     

Markmið fjarkennslu Verkmenntaskólans á Akureyri er að gefa þeim kost á námi, sem ekki geta stundað það á hefðbundinn hátt. Í þessu er hún stórt skref til jöfnunar aðstöðu fólks til náms á framhaldsskólastigi.

Fjarkennsla VMA fer fram með tölvusamskiptum. Nýjungar í tækni eru teknar upp strax og fært þykir, en ætíð með það í huga að þær séu innan þess, sem ætla má að sé á færi tölvunotanda almennt.
Fjarkennsla með tölvum

Nemendur í fjarnám við VMA eru hvaðanæva að af landinu og einnig erlendis, enda má stunda fjarnám nánast hvaðan sem er, sé fyrir hendi grunnbúnaður til tölvusamskipta. Hann er tölva og mótald. Gott er að hafa prentara. Tölvan tengist símakerfinu, en um það fara samskiptin á milli kennara og nemenda..

Auk tækjabúnaðarins þarf nemandinn netfang á tölvunetinu og lykilorð. Netfangið og lykilorðið fæst hjá þjónustuaðila þeim, sem tengir nemandann. Netfangið er „heimilisfangið“ á tölvunetinu. Póstur fer í pósthólf í móðurtölvu hjá þjónustuaðilanum og bíður þess að hann sé sóttur. Það má gera jafnt á nóttu sem degi, ef sambandið er í lagi. Lykilorðið á notandinn einn að þekkja. Það opnar pósthólf hans. Íslenska tölvunetið er hluti af hinu alþjóðlega Interneti.

Framvinda námsins

Námsefni, yfirferð, kennsla og kröfur í fjarkennslu VMA eru samræmd almennum deildum framhaldsskólans. Því nota fjarnemendur kennslubækur og önnur gögn framhaldsskólastigsins. Þetta efni kaupa nemendur í bókaverslunum landsins. (Sjá bókalista á vefsíðum skólans.) Tryggt er í samráði við deildarstjóra hverrar greinar, að allt efni áfanga sé tekið fyrir í yfirferð annarinnar. Nemendum er greint frá skiptingu námsefnisins og skipulagi kennslunnar í kennsluáætlun í upphafi annarinnar.

Í upphafsviku annarinnar velja kennarar vikudag til vikulegra sendinga efnis til nemenda. Efnið er verkefni, leiðbeiningar, tilvísanir í rit og annað, sem tengist náminu. Einnig er vísað í veraldarvefinn (World Wide Web) í ýmsum áföngum varðandi t.d. ítarefni og gagnvirk verkefni. Kennsluefni nokkurra áfanga er í tölvuvædda kennsluumhverfinu WebCT.

Yfirleitt er gert ráð fyrir því, að hver námsefnispakki feli í sér um það bil viku vinnu nemandans. Því er almennt reiknað með því, að nemandinn ljúki úrlausn sinni innan viku frá því að námsefnispakki er sendur. Hver kennari setur hámarksskilafrest úrlausna, tíðast hálfan mánuð, og eiga nemendur að hlýta fyrirmælum kennara um skil svo sem þeim er framast unnt. Með ákvæðum um hámarksskilafresti er leitast við að mæta ófyrirséðum uppákomum, en langæskilegast er þó að ljúka hverri úrlausn innan viku frá því að verkefni berst; ella taka þau að hlaðst upp. Dragist skil fram yfir hámarksskilafrest ber nemanda að hafa samband við kennara sinn og gefa honum skýringu á töfinni.

Dragist skil fram yfir uppgefin hámarksskilamörk án gildra ástæðna, getur farið svo, að talið verði, að nemandinn hafi sjálfur sagt sig frá námi.

Tíðast er unnt að vinna úrlausnina beint inn á tölvuna. Hún er send um tölvunetið til kennarans, sem fer yfir hana, leiðréttir og gerir athugasemdir. Höfuðreglan er, að nemandinn fái yfirfarna úrlausn til baka innan sólarhrings frá því að hann sendi hana til kennara síns. Út af þessu getur brugðið vegna anna kennara, sem flestir eru einnig dagskólakennarar. Miklu skiptir, að nemandinn fari vandlega yfir yfirfarna úrlausnina til þess að læra af henni.

Nemandinn getur sent kennara sínum fyrirspurnir um námið og annað. Nemendur er eindregið hvattir til þess að notfæra sér þetta. Æskilegast er að senda fyrirspurnir í tölvupósti. Síma má einnig nota, en torvelt getur verið að ná til kennara vegna annarra starfa þeirra.. Í ýmsum áföngum eru nemendur í samskiptum á spjallvefjum, ræða námsefnið eða stunda t.d. hópavinnu.

Námstími fjarkennslunnar er miðaður við önn framhaldsskólans. Í flestum áföngum lýkur náminu með prófi, sem tekið er innan almenns prófatíma framhaldsskólans. Almennt er gert ráð fyrir því, að rétt til próftöku hafi einungis þeir nemendur, sem staðið hafa full skil á úrlausnum sínum, en kennarar geta sett sérákvæði um þetta atriði.

Próf tekur nemandinn í heimabyggð sinni eða hið næsta henni, tíðast í skóla. Próf eru send á prófstaði í pósti eða með faxi. Unnin próf eru send til kennara, sem fara yfir þau og gefa einkunnir. Þegar kennari hefur farið yfir próf nemanda, sendir hann honum einkunn í tölvupósti ásamt greinargerð eftir þörfum og kemur hún í stað prófsýningar, sem ekki verður við komið í fjarkennslunni. Ef nemandi óskar þess, er hægt að fá sendan námsferil í pósti, þegar innfærslu einkunna er að fullu lokið.

Námsvinnan

Í áfangakerfinu er námsgreinum skipt í „áfanga“, sem hver er einnar annar vinna. Einingafjöldi áfanga er síðasta talan í númeri hans. Því er ENS 102 tvær einingar og SAG 103 þrjár.

Almennt má reikna með því, að tíminn talinn í klukkustundum, sem þarf til fjarnámsins í viku hverri, sé um það bil sú tala, sem út kemur, þegar samtala valinna eininga er margfölduð með þrem. Vinna í t.d. STÆ 113 gæti því orðið níu klst. í viku. Þetta þarf að hafa í huga, þegar áfangar eru valdir í fjarnáminu.

Verkmenntaskólinn á Akureyri

Hringteig 2
600 Akureyri
Sími 464 0300 / Fax 464 0301
Kt. 531083-0759
vma@vma.is

Skrifstofa VMA
er opin alla virka daga frá kl. 08:00 - 15:00