Fara í efni

Tónleikar í Ketilhúsinu verða lokaverkefni Særúnar Elmu

Særún Elma Jakobsdóttir við vatnslitamyndina sína.
Særún Elma Jakobsdóttir við vatnslitamyndina sína.

Særún Elma Jakobsdóttir hyggst fara heldur óvenjulega leið í lokaverkefni sínu á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Hún ætlar að efna til tónleika í Ketilhúsinu í apríl með hljómsveit sem hún er að setja saman þessa dagana.

Lokaverkefni nemenda á listnáms- og hönnunarbraut eru eins ólík og þau eru mörg. Flest tengjast verkefnin þó myndlist og textíl en nemendur fá frjálsar hendur með val og útfærslu á þeim. En Særún Elma velur sem sagt að feta sig inn á tónlistarbrautina í lokaverkefni sínu og efna til tónleika þar sem hún ætlar að syngja við undirleik hljómsveitar fjölbreytta efnisskrá með ýmsum uppáhalds lögum, m.a. úr söngleikjum.

Það kemur ekki beint á óvart að Særún Elma helgi tónlistinni lokaverkefni sitt enda hefur tónlistin fylgt henni lengi. Leiklistin reyndar líka – og raunar beindist áhuginn fyrst að leiklistinni. Tólf ára gömul sótti Særún Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. Þá var ekki aftur snúið og leiklistin hefur ekki farið frá henni síðan. Meðal annars hefur hún tekið þátt í nokkrum uppfærslum Leikfélags VMA. Í Tröllum, sem nú eru á fjölunum í Menningarhúsinu Hofi, hefur Særún séð um söngþjálfun leikaranna en er sjálf ekki á sviðinu að þessu sinni.

Særún hefur samhliða náminu á listnámsbraut VMA stundað söngnám í Tónlistarskólanum á Akureyri. Hún hefur sungið í Sturtuhausnum – söngkeppni VMA undanfarin ár og sigraði keppnina í ár. Særún verður því fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna í apríl nk. Það verður sem sagt nóg að gera í tónlistinni hjá henni í þeim mánuði.

Það var ekki myndlistin sem dró Særúnu á listnáms- og hönnunarbraut enda segist hún ekki hafa verið týpan sem var alltaf að teikna í frístundum í grunnskóla. Fyrst og fremst langaði hana að rækta áhuga sinn á listum og fór því í þetta nám. Hún segist ekki sjá eftir því. Auk myndlistaráfanga sé svo óteljandi margt sem nemendur læri í þessu námi, hún nefnir í því sambandi listasögu og margt fleira megi nefna. Og auðvitað hafi hún lært helling í myndlist. „Fyrst ég gat lært undirstöðuatriðin í myndlist, þá geta það allir,“ segir hún og hlær. Núna er vatnslitamynd sem Særún gerði á haustönn í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur til sýnis á vegg mót austurinngangi VMA.

En hvað ber framtíðin í skauti sér hjá Særúnu? Því segist hún ekki geta svarað að svo komnu máli en hún hafi áhuga á því að geta blandað saman námi í tónlist og leiklist. Hvar og hvenær það geti orðið komi síðar í ljós. Verkefni dagsins í dag lúti að því að klára þessa önn með öllum sínum verkefnum og ljúka þar með námi til stúdentsprófs frá VMA.