Fara í efni

Særún Elma sigraði Sturtuhausinn

Særún Elma Jakobsdóttir með Sturtuhausinn.
Særún Elma Jakobsdóttir með Sturtuhausinn.

Særún Elma Jakobsdóttir sigraði Sturtuhausinn – söngkeppni VMA í Gryfjunni í gærkvöld. Hún flutti lag bandarísku söngkonunnar The Joke með miklum glæsibrag – sannkallaður gæsahúðarflutningur! Særún Elma verður því fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldskólanna í apríl.

Dalvíkingurinn Særún Elma er á síðustu önn á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Hún er afar sviðsvön enda hefur hún verið í söngnámi síðan hún var í níunda bekk grunnskóla á Dalvík og eftir að hún hóf nám í VMA hefur hún jafnframt stundað söngnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, fyrst hjá Heimi Bjarna Ingimarssyni en núna er Þórhildur Örvarsdóttir kennarinn hennar. Hún hefur síðustu þrjá vetur leikið í uppfærslum Leikfélags VMA á Ávaxtakörfunni, Bugý Malón og Litlu hryllingsbúðinni. Í vetur verður hún ekki á sviðinu í uppfærslunni á Tröllum, sem verður frumsýnd í Hofi í næsta mánuði, en hún kemur engu að síður við sögu sem söngstjóri sýningarinnar. Í því felst að hún stýrir þjálfun og samhæfingu söngvaranna í sýningunni.

Særún Elma segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvað taki við eftir námið í VMA en einhvers konar listnám sé á dagskránni – hvort sem það verður í söng eða leiklist.

Í ár voru níu lög í Sturtuhausnum – hin átta voru:

Natan Dýri Hjartarson
idontwannabeyouanymore – Billie Eilish

María Björk Jónsdóttir
Allt mitt líf – Ellý Vilhjálms

Sunneva Eldey Þorvaldsdóttir
Hard Place – H.E.R.

Tómas Martin Seabreeze
Bitch Lasagna – Pewdiepie

Örn Smári Jónsson
Stole the show – James Parson

Björg Elva Friðfinnsdóttir
Stay – Rihanna

Sigríður Björk Hafstað
Still feel – Half alive

Berglind Anna Erlendsdóttir
Make you feel my love – Adele

Dómnefnd skipuð Valgerði Sigurðardóttur, Kolbrúnu Lilju og Wolfgang Frosta Sahr var ekki öfundsverð að komast að niðurstöðu um þrjú efstu sætin enda flutningur laganna mjög góður. Í öðru sæti varð Örn Smári Jónsson og í þriðja sæti Sigríður Björk Hafstað.

Áheyrendaverðlaunin, sem voru valin í atkvæðagreiðslu gesta í sal, vann Tómas Martin Seabreeze með nokkrum yfirburðum fyrir afar líflegan flutning á Bitch Lasagna.

Eins og komið hefur fram hefur Sturtuhausinn farið fram undanfarin ár í Menningarhúsinu Hof en í ár var ákveðið að halda hann á heimavelli í Gryfjunni. Í stuttu máli sagt var umgjörð keppninnar afar vel heppnuð og eiga allir þeir sem komu að undirbúningi og framkvæmd hennar ríkulegt hrós skilið fyrir glæsilega umgjörð í Gryfjunni. Og mætingin var frábær, Gryfjan var þétt setin og stemningin eftir því.

Hljómsveit kvöldsins stóð sig einstaklega vel. Í henni voru: Jóel Örn Óskarsson gítar, Alexander Örn Hlynsson gítar, Ágúst Máni Jóhannsson bassi, Ólafur Anton Gunnarsson trommur og Árdís Eva Ármannsdóttir píanó.

Ljóst er að tónlistarstjóri söngkeppninnar, Ingvi Rafn Ingvason, hefur unnið frábært starf með bæði hljómsveit og söngvurum í aðdraganda keppninnar. Hann á mikið hrós skilið. Það sama má segja um tæknimennina, stjórn Þórdunu og kynnana, Freystein Sverrisson og Steinar Loga Stefánsson, sem stóðu sig með mikilli prýði.

Eftir að keppendur höfðu sungið sín lög og á meðan dómnefnd komst að niðurstöðu flutti Anton Líni tónlistarmaður nokkur lög. Hann er fyrrum nemandi VMA og hefur tekið þátt í Sturtuhausnum.

Áður en úrslit keppninnar voru tilkynnt steig stjórn Þórdunu á svið og kynnti árshátíð VMA sem verður haldin í íþróttaskóla Síðuskóla 20. mars nk. Fram munu koma Auður, Jón Jósep Snæbjörnsson - Jónsi í Svörtum fötum, Hera Björk, Kebabiboys, DJ Ingi Bauer og Hvanndalsbræður. Veislustjórar verða Gói Sportrönd og Tinna Björk.