Fara í efni

Tónleikar í Gryfjunni voru lokaverkefni Særúnar Elmu

Særún Elma og Sjö, níu, þrettán í Gryfjunni.
Særún Elma og Sjö, níu, þrettán í Gryfjunni.

Særún Elma Jakobsdóttir hefur undanfarin ár stundað nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA og hún setti lokapunktinn yfir i-ið í náminu í gærkvöld þegar hún efndi til tónleika í Gryfjunni í VMA með félögum sínum í hljómsveitinni Sjö, níu, þrettán. Tónleikarnir voru lokaverkefni Særúnar Elmu í náminu á vorönn, síðustu önninni á listnáms- og hönnunarbraut til stúdentsprófs.

Það kom ekki á óvart að Særún Elma skyldi velja tónlistarsköpun í lokaverkefni sínu enda hefur hún sungið lengi og sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar undanfarna vetur í söng- og leiklist í VMA. Hún sigraði t.d. Sturtuhausinn - söngkeppni VMA fyrr á þessu ári.

Upphaflega ætlaði Særún Elma að efna til stærri tónleika í Ketilhúsinu, húsi Listasafnsins á Akureyri, en af því gat ekki orðið vegna takmarkana á fjölda þeirra sem mega sækja viðburði. Niðurstaðan var að halda lokaða Gryfjutónleika þar sem voru m.a. nokkrir úr fjölskyldu Særúnar Elmu, kennarar á listnáms- og hönnunarbraut og söngkennari og prófdómari frá Tónlistarskólanum á Akureyri en auk náms í VMA hefur Særún Elma stundað söngnám í Tónlistarskólanum.

Á tónleikunum í gærkvöld söng Særún Elma fimm lög með hljómsveitinni Sjö, níu, þrettán - fjögur þeirra eru frumsamin af hljómsveitinni - lög og textar. Kraftmikil tónlist og fjölbreytt og virkilega vel gert hjá þessari þéttu og efnilegu hljómsveit sem mun örugglega láta frekar ljós sitt skína í tónlistinni í framtíðinni. Særún Elma hefur tónlistina í blóðinu og lætur til sín taka í söng og að semja tónlist og texta. Sannarlega eftirminnilegt lokaverkefni hennar í Gryfjunni.