Þrettán í kvöldskóla í húsasmíði

Við upphaf haustannar hóf nýr þrettán nemenda hópur nám í húsasmíði við byggingadeild VMA. Þetta er þriðji hópurinn í kvöldskóla í húsasmíði við skólann, hópur tvö brautskráðist frá skólanum sl. vor.
Eins og nafnið gefur til kynna er kennt í kvöldskólanum síðdegis og fram á kvöld, þó ekki alla virka daga. En yfirferðin er mikil, námsefni tveggja anna í dagskóla er kennt á einni önn í kvöldskólanum. Með öðrum orðum er námsefni fyrsta árs í dagskóla kennt kvöldskólanemum núna á haustönn. Eftir áramót, á annarri önn kvöldskólans, fara nemendur í að byggja frístundahús, sem dagskólanemendur vinna að á öðru námsári sínu.
Aldurssamsetning nemenda í kvöldskólanum er að vonum allt önnur en í dagskóla sem kemur til af því að nemendur sem ljúka námi úr 10. bekk grunnskóla hafa forgang að nemendaplássum í dagskóla. Þeir sem eldri eru og hafa brennandi áhuga á að læra smíðarnar eiga því erfitt með að komast í nám og fá tilskilin réttindi sem húsamiðir. Fyrir þá er kvöldskólinn því góður kostur.
Bakgrunnur nemenda í kvöldskólanum er af ýmsum toga. Sumir hafa unnið og eru að vinna dags daglega við smíðar og hafa þannig safnað dýrmætri reynslu í sarpinn en aðrir hafa minni reynslu af smíðum en vilja gjarnan afla sér kunnáttu í þeim, annað hvort til þess að nýta sér í eigin þágu eða stefna á að hafa lifibrauð af smíðum.
Það fer ekkert á milli mála þegar litið er inn í kennslustund í kvöldskólanum að áhuginn er mikill og í námið eru nemendur komnir til þess að læra, þeir nýta tímann út í ystu æsar og gefa sér vart tíma til þess að taka kaffipásu. Kennarar í byggingadeildinni skipta kennslunni í kvöldskólanum með sér til hliðar við dagskólakennsluna.
Þegar litið var inn í kennslustund Braga Óskarssonar kennara með kvöldskólanemum í liðinni viku fengu þeir í hendur hlífðarfatnað, eins og dagskólanemar höfðu fengið fyrr um daginn.