Fara í efni

Nemendur byggingadeildar fengu hlífðarföt og öryggisbúnað

Nemendur á fyrstu önn í byggingadeild í nýja hlíðarfatnaðinum. Með þeim á myndinni eru Benedikt Barð…
Nemendur á fyrstu önn í byggingadeild í nýja hlíðarfatnaðinum. Með þeim á myndinni eru Benedikt Barðason skólameistari, Ásta F. Flosadóttir aðstoðarskólameistari VMA og Birkir Freyr Sigurðsson sölumaður hjá Sandblæstri og málmhúðun - FerroZink.

Í vikunni fengu fyrsta árs nemar í byggingadeild afhentan veglegan öryggispakka sem í var m.a. hlífðarfatnaður, öryggisskór, hlífðarhjálmur, öryggisgleraugu o.fl. Þennan stóra fata- og persónuhlífapakka fá nemendur gegn vægu verði en Verkmenntaskólinn sem og Byggiðn – félag byggingamanna greiða hann umtalsvert niður og einnig veita Sandblástur og málmhúðun - FerroZink og birgjar ríflegan afslátt af þessum búnaði og gera nemendum kleift að eignast hann á mjög góðum kjörum.

Öryggispakkanum var að sjálfsögðu fagnað að hætti hússins með köku. Þessar myndir voru teknar við þetta tækifæri.

Byggingadeildin leggur mikið upp úr öryggismálum því fjölmargt getur farið úrskeiðis ef öryggis er ekki gætt í hvívetna. Skólinn gerir kröfu um að nemendur séu í öryggisskóm og noti viðhlítandi öryggishlífar á verkstæði byggingadeildar, við smíði frístundahúsa utan dyra og í heimsóknum á vinnustaði utan skólans. Fatnaðinn geta nemendur geymt í læstum skápum sem þeir hafa aðgang að í byggingadeild.

Full ástæða er til að þakka Byggiðn og FerroZink og birgjum þennan mikilvæga og góða stuðning við byggingadeild VMA og nemendur hennar. Stuðningur öflugra bakhjarla við námið er skólanum og nemendum hans ómetanlegur.