Fara í efni

Þorskurinn klikkar ekki

Mataræfing í grunndeildinni. Verkefni dagsins var að elda þorsk og meðlæti.
Mataræfing í grunndeildinni. Verkefni dagsins var að elda þorsk og meðlæti.

Til þess að verða matreiðslu-, framreiðslu- (þjónn), kjötiðnaðarmaður eða bakari eða sækja sér menntun í matartækni þurfa nemendur fyrst að fara í gegnum grunndeild matvæla- og ferðagreina. Hún er ein verknámsbrautanna í VMA og á sér langa sögu.

Lágmarksfjölda nemenda þarf í hópa til þess að unnt sé að kenna annað hvort 2. eða 3. bekk í matreiðslu og fullnema matreiðslumenn. Síðastliðinn vetur lauk hópur nemenda námi í matreiðslu og einnig var á sama tíma fyrsti hópur framreiðslunema sem lauk starfsnámi sínu frá skólanum. Það var því tvöföld útskrift sérmenntaðs fólks í þessum tveimur afar mikilvægu starfsgreinum í ferðaþjónustu. Mikill skortur hefur verið á fagmentuðu fólki í vaxandi ferðaþjónustu á Íslandi og því er alltaf ánægjulegt þegar nemendur ljúka námi þessum starfsgreinum. Ekkert bendir til annars en að ferðaþjónustan vaxi áfram sem aftur þýðir að aukin spurn verður eftir fagmenntuðu fólki til starfa í greininni. Atvinnumöguleikarnir eru því miklir fyrir ungt fólk í þessum greinum og því ástæða til þess að gefa þeim gaum.

Sem fyrr hóf hópur nemenda grunnnám sitt í grunndeild matvæla- og ferðagreina í VMA í upphafi haustannar. Núna á haustönn og á vorönn er farið í fjölmörg grunnatriði í matreiðslu, bakstri og framreiðslu. Tékklistinn er langur og æfingin skapar meistarann. Þegar litið var inn í verklega kennslustund hjá kennurunum Ara Hallgrímssyni og Hebu Finnsdóttur var nemendum skipt í tvo hópa, annar hópurinn annaðist matreiðsluna og hinn var í framreiðslunni.

Matseðill dagsins var þorskur borinn fram með kartöflum, grænmeti og brauði. Allt var þetta eftir kúnstarinnar reglum og punkturinn var settur yfir i-ið með dýrindis máltíð.