Þéttskipuð dagskrá Ástu Ólafar
„Þetta gengur bara mjög vel. Núna eftir jólafríið æfum við stíft, alla daga nema föstudaga og laugardaga,“ segir Ásta Ólöf Jónsdóttir, sem fer með burðarhlutverkið, sjálfa Ronju ræningjadóttur, í uppfærslu Leikfélags VMA á samnefndum söngleik. Eins og kom fram í frétt hér á heimasíðunni sl. föstudag verður frumsýning á verkinu 14. febrúar nk. Ásta Ólöf og félagar hennar í Leikfélaginu sýndu atriði við brautskráningu VMA 19. desember sl. og er óhætt að segja að það hafi gefið til kynna að leikhúsgestir geti leyft sér að hlakka til sýningarinnar.
Ásta Ólöf er nýnemi í VMA, hún hóf nám sl. haust á félags- og hugvísindabraut VMA. Hún er Sauðkrækingur og hefur, þrátt fyrir ungan aldur, töluverða reynslu af leiklistinni, bæði hjá Leikfélagi Sauðárkróks og úr skólasýningum í Árskóla á Króknum. Síðasta uppfærslan sem Ásta Ólöf tók þátt í hjá Leikfélagi Sauðárkróks var Ávaxtakarfan, sem var sett upp á haustdögum 2024 í Bifröst á Sauðárkróki. Ásta segist hafa fengið leiklistina í æð sem barn og unglingur enda hafi móðir hennar lengi verið tengd starfi Leikfélags Sauðárkróks og því hafi hún oft fengið að fylgja henni á æfingar og fylgst með öllu að tjaldabaki, þar til hún steig sjálf á sviðið.
Að vonum er í mörg horn að líta fyrir þá nemendur sem taka þátt í uppfærslunni á Ronju. Mikið um æfingar og því mikill tími sem fer í leiklistarstarfið, ekki bara fyrir leikarana heldur einnig þá sem vinna eitt og annað að tjaldabaki. Því það er nú svo að uppfærsla á leikriti er hópeflisverkefni miklu fleiri en þeirra sem standa á sviðinu.
Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að Ásta Ólöf kemur af miklum krafti inn í félagslífið í VMA því auk þess að leika Ronju er hún varaformaður stjórnar Leikfélags VMA og er auk þess nýnemafulltrúi í stjórn nemendafélagsins Þórdunu.