Fara í efni

Þátttakan í félagslífinu markaði stefnuna

Ólafur Göran Ólafsson Gros.
Ólafur Göran Ólafsson Gros.

„Eftir að ég lauk stúdentsprófi frá VMA vorið 2018 var ég ekki viss um hvert hugurinn stefni. Ég var á náttúrufræðibraut í skólanum en bætti við mig öðrum áföngum og brautskráðist af fjölgreinabraut. Eftir VMA fór ég að vinna hjá Menningarfélagi Akureyrar í Hofi sem tæknimaður og vann þar til haustið 2020, í miðjum heimsfaraldri, þegar ég ákvað að taka nýja stefnu og flutti til Stokkhólms í Svíþjóð til þess að fara í kvikmyndaskóla,“ segir Ólafur Göran Ólafsson Gros, sem var á sínum tíma í VMA áberandi í félagslífi nemenda, m.a. sem formaður nemendafélagsins Þórdunu.

„Þegar ég var í VMA hafði ég ekki leitt hugann að því að fara í þetta nám en þar hafði ég þó tekið þátt í tæknimálum hjá Leikfélagi VMA og það kveikti áhugann. Eftir á að hyggja held ég að það sé félagslífinu í VMA og Hilmari Friðjóns að þakka að ég valdi loks að fara þessa leið, í kvikmyndanám. Ég hafði mjög mikla ánægju af því að lýsa leiksýningar hjá Menningarfélaginu og taka þátt í öllum tækninmálunum í kringum þær. Hins vegar fannst mér miður að þegar sýningum var lokið var ekkert eftir nema minningarnar. Mig langaði að taka þátt í að skapa eitthvað sem gæti staðið og fólk gæti horft á aftur og aftur. Þess vegna held ég að kvikmyndanámið hafi orðið ofan á.“

Náminu í Stokkhólmi lauk Ólafur á tveimur árum, útskrifaðist vorið 2022. Í raun er þetta þriggja ára nám en því var þjappað saman á tvö ár og segir Ólafur að því sé ekki að leyna að námið hafi verið mjög stíft. Áhersla Ólafs í náminu var á myndatökur og leikstjórn.

Sumarið 2021 vann Ólafur hjá Rúv á Akureyri í þrjá mánuði sem tökumaður og klippari. Á liðnu sumri starfaði Ólafur í Svíþjóð í þáttagerð og við gerð heimildamyndar en einnig starfaði hann um tíma hjá Rúv á Akureyri en var þá boðin tímabundin afleysingastaða línupródúsents á fréttastofu Rúv í Efstaleiti í Reykjavík. Í þessu felst að stýra tæknimálunum við útsendingu daglegra kvöldfrétta sjónvarps í Efstaleiti og starfar línupródúsentinn við hlið pródúsents fréttanna. Ólafur segir að þetta sé mjög góð reynsla en eftir sem áður sé stefna hans í framtíðinni að vinna í kvikmyndageiranum og nýta þá kunnáttu sem hann hafi aflað sér í kvikmyndanáminu við leikstjórn og myndatökur.

„Það er mikið af spennandi hlutum að gerast í kvikmyndaheinum og ég er mjög sáttur við að hafa valið þessa leið. Það er enginn vafi á því að öll vinnan mín í félagslífinu í VMA á sínum tíma hefur verið mér mikill styrkur og markað þá leið sem ég síðan fór,“ segir Ólafur.