Fara í efni

Líst vel á veturinn

Ólafur Göran Ólafsson Gros, formaður Þórdunu.
Ólafur Göran Ólafsson Gros, formaður Þórdunu.

Sem fyrr mæðir mikið á stjórn nemendafélags VMA, Þórdunu, enda þarf hún að halda í marga þræði til þess að félagslífið verði með sem mestum blóma í vetur – og það er að sjálfsögðu takmarkið. Ekki síst mun mikið mæða á formanni Þórdunu, Ólafi Göran Ólafssyni Gros.

„Veturinn leggst bara vel í mig. Þetta er auðvitað mikil vinna en ég var líka í stjórn nemendafélagsins í fyrra og kynntist þessu vel. Það mun nýtast mér mjög vel í vetur,“ segir Ólafur sem stundar nám á náttúrufræðibraut, er raunar langt kominn með námið og stefnir á að útskrifast í vor. „Fyrst og síðast er þetta spurning um að skipuleggja sig vel til þess að geta stundað námið af krafti samhliða þeirri miklu vinnu sem fylgir því að vera formaður Þórdunu,“ bætir Ólafur við.

Ólafur segir að til að byrja með sé áhersla lögð á að taka vel á móti nýnemum, með bæði nýnemaferðinni í síðustu viku og síðan svokallaðri nýnemahátíð, sem verður á morgun, þar sem nýnemar verða boðnir velkomnir í skólann með leikjum, grílli og nýnemaballi.

Í næsta mánuði segir Ólafur að félagslífið muni síðan smám saman komast í fullan gang með klúbbastarfi og viðburðum. Fyrsti stóri viðburðurinn verður 14. september þegar efnt verður til skemmtikvölds í Gryfjunni. Ætlunin er að slá saman karla- og konukvöldum sem hafa verið  haldin undanfarin ár í eina veglega kvöldskemmtun. „Í stórum dráttum sjáum við fyrir okkur að sameina karla- og kvennakvöldið í eitt skemmtikvöld. Ég hef trú á því að þessi nýbreytni muni koma vel út,“ segir Ólafur.

Áfram verður haldið í október með uppistandskvöldi í Gryfjunni, sem tókst mjög vel síðasta vetur, og síðan verður stórviðburður þann 9. nóvember í Hofi þegar árleg Söngkeppni VMA verður haldin þar. Söngkeppnin hefur jafnan verið haldin eftir áramót en að þessu sinni var ákveðið að efna til hennar fyrir áramót og segir Ólafur að hvergi verði slakað á við að gera keppnina sem glæsilegasta.

Ólafur segir að eins og undanfarin ár verði töluverð áhersla á leiksýningu Leikfélags VMA, sem að þesu sinni verður Ávaxtakarfan og verður hún frumsýnd fyrrihluta febrúar, eins og greint hefur verið frá hér á heimasíðunni. Nú þegar er hafinn undirbúningur fyrir sýninguna og ljóst að meðgöngutíminn verður mun lengri en áður hefur þekkst við uppfærslur Leikfélags VMA.

Ýmislegt er auðvitað á döfinni á vorönn, til viðbótar við Ávaxtakörfuna. Árshátíð VMA verður að sjálfösgðu sínum stað í mars og einnig er í mótun svokallað matarkvöld. Fyrirkomulag þess skýrist frekar þegar nær dregur.