Fara í efni

Tekst á við áhugaverðar áskoranir

Pétur Guðjónsson á fjarfundi.
Pétur Guðjónsson á fjarfundi.

Pétur Guðjónsson viðburðastjóri VMA er maður áskorana. Það hefur hann sýnt undanfarin ár. Á þessu skólaári tekst hann á við nýjar áskoranir. Hann er leikstjóri uppfærslu Leikfélags VMA á Grís, sem stefnt er að því að frumsýna í febrúar á næsta ári, og er ljóst að æfingaferlið verður með öðrum hætti en í eðlilegu árferði. Til hliðar við viðburðastjórnunina í VMA og leikstjórnina hóf Pétur í haust fjarnám í leikhúsfræðum við skóla í London. Námið er heilmikil áskorun, segir Pétur.

Ný og óþekkt spor í leikstjórninni
Fram kom hér á heimasíðunni sl. mánudag að búið væri að velja í hlutverk í uppfærslu Leikfélags VMA á Grís og hittist leikhópurinn með leikstjóra sl. sunnudagskvöld. Í gærkvöld var fyrsti samlestur leikhópsins á Zoom-fjarfundi. Þetta eru óvenjulegir tímar á allan hátt, líka í leiklistinni. Fjarfundabúnaðinn þarf að nota að svo komnu máli og segir Pétur að leikhópurinn fái send myndbönd og annað efni til þjálfunar í hreyfingum og dansi. „Það er ljóst að ég get ekki hitt allan leikhópinn strax, enda mega ekki fleiri en tíu koma saman. En mögulega get ég áður en langt um líður hitt tvo til fjóra leikara í senn og farið yfir hlutina með þeim. Allt verður þetta að vinnast innan þeirra marka sem sóttvarnareglur setja okkur,“ segir Pétur og bætir við að hann hafi aldrei áður verið í þessum sporum í leikstjórn, enda þessir tímar án fordæma.

Í fjarnámi við Rose Bruford College
Vorið 2019 hafði Pétur hug á því að fara í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Það breyttist og Pétur tók U-beygju ári síðar. „Einn daginn í Covid-ástandinu sl. vor var ég á Google í tölvunni minni og áður en ég vissi af var ég búinn að senda umsókn um fjarnám í leikhúsfræðum við Rose Bruford College í London. Ég komst inn og er núna á fyrstu önninni. Sannast sagna vissi ég ekki mikið út í hvað ég var að fara en ákvað engu að síður að láta vaða. Ég viðurkenni fúslega að þetta er mjög krefjandi og krefst sjálfsaga. Fyrst og fremst er þetta verkefnavinna og einu sinni í mánuði er veffundur með nemendum sem eru staðsettir út um allan heim. Stærsta áskorunin í þessu er námsumhverfið og að tileinka sér þá fagensku sem er töluvert ráðandi í námsefninu,“ segir Pétur.