Fara í efni

Búið að velja í hlutverk í Grís - fjaræfingar til að byrja með

Fyrsti fjarfundur leikhópsins með leikstjóra.
Fyrsti fjarfundur leikhópsins með leikstjóra.

Þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru og allar takmarkanir sem af henni hafa leitt lætur Leikfélag VMA ekki deigan síga og tekur næstu skref í uppfærslu á söngleiknum Grís, sem eins og fram hefur komið verður leiksýning vetrarins hjá félaginu. Í september sl. tókst að halda leiklistarnámskeið sem var vel sótt og til stóð að hafa leikprufur fyrir Grís 7. október sl. en af því gat ekki orðið vegna sóttvarnareglna. Á dögunum tókst að hafa prufurnar, þó með nokkuð breyttu sniði frá upphaflegri áætlun, og út frá þeim hefur nú verið valið í hlutverk í sýningunni. Sextán manns koma til með að standa á sviðinu og verður hlutverkaskipan sem hér segir:

Dagbjört Nótt JónsdóttirSandy
Jóhann Gylfi JóhannssonDanny
María Björk JónsdóttirRizzo
Freysteinn SverrissonKenickie
Emilía Marín SigurðardóttirJan
Eyrún Arna IngólfsdóttirMarty
Embla Björk JónsdóttirFrenchy
Kormákur RögnvaldssonDoody
Sveinn Brimar JónssonRoger
Agnar SigurðarsonSonny
Sigríður Erla ÓmarsdóttirPatty
Vala Alvilde BergEugene
Katla Snædís SigurðardóttirCha/Cha, aukahlutverk, dans
Örn Smári JónssonVince Fontaine
Anna Birta Þórðardóttir og Emilía Fönn Hafsteinsdóttir aukahlutverk, dans

Um þrjátíu nemendur mættu í síðustu viku í prufur fyrir hlutverk í Grís. Sem fyrr segir koma sextán til með að leika í sýningunni en fjölmargir aðrir fá sitt mikilvæga hlutverk í henni því að svo ótal mörgu er að hyggja við uppfærslu á söngleik eins og Grís; sviðsmynd, búningar, leikmunir, hárgreiðsla, förðun, leikskrá og svo fjölmargt annað.

Pétur Guðjónsson leikstjóri sýningarinnar er afar ánægður með þann kraft og áhuga sem nemendur hafa sýnt á uppfærslunni og hann horfir björtum augum fram á veginn, þrátt fyrir að þrengt hafi að með nýjustu sóttvarnareglugerð. Engu að síður segir Pétur að farið verði af stað af fullum krafti með æfingar, þótt þær verði með öðru sniði en venjulega. Fjarfundatæknin verður nýtt til samlestra til að byrja með og var fyrsti sameiginlegi fjarfundur leikhópsins með leikstjóra í gærkvöldi. Pétur sagði fundinn hafa verið vel heppnaðan og mikill hugur væri í hópnum. Hann sagði að koma yrði í ljós hversu lengi fjaræfingar verði, það ráðist fyrst og fremst af sóttvarnareglum, en hann segist ekki hafa gefið þann möguleika upp á bátinn að sýna atriði úr uppfærslunni á Grís á Glerártorgi í aðdraganda jóla, eins og áætlað hefur verið. Allt komi þetta þó í ljós á næstu vikum.

Miðað er við að frumsýna Grís í Gryfjunni í febrúar á næsta ári en vissulega gæti kórónuveiran sett strik í reikning þeirrar áætlunar. Tíminn einn mun leiða það í ljós.