Fara í efni

Sumarbústaður tekur á sig mynd

Unnið er í bústaðnum bæði að utan og innan.
Unnið er í bústaðnum bæði að utan og innan.

Frá því í haust hafa nemendur í húsasmíði unnið að byggingu sumarbústaðar. Þetta er árviss bygging verðandi húsasmiða og er afar kærkomið verkefni fyrir þá til þess að kynnast fjölmörgum þáttum í byggingu húss. Tveir hópar – samtals með rösklega 20 nemendur – vinna að byggingu hússins undir stjórn kennara í byggingadeild.

Í upphafi haustannar hófst vinnan við byggingu sumarhússins með því að setja saman veggi þess innan dyra og síðan voru þeir reistir í október. Í kjölfarið var farið í þakið og húsið klætt að utan og er sá verkþáttur nú á lokasprettinum. Einnig var byrjað að vinna á fullu inn í húsinu, búið er að einangra og næstu daga verður farið í að klæða húsið að innan. Einnig er byrjað að setja upp grindur fyrir milliveggi.

Nemendur í pípulögnum í VMA unnu í síðustu viku að því að koma fyrir vatnslögnum í veggjum og sömuleiðis eru nemendur í rafvirkun byrjaðir að koma fyrir dósum. Bygging sumarhússins er því skemmtilegt samvinnuverkefni nemenda í húsasmíði, pípulögnum og rafvirkjun og gefur þeim góða sýn á hvernig staðið er að þeirra verkþáttum í nýbyggingu.